Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

13. janúar 2021

Hengir af sér á greinar trjánna

„Ég fór að vinna heiman frá, það er svo skrýtið að segja frá því, en við það lengdist vinnudagurinn minn um margar klukkustundir á dag.“ Mynd/Axel Jón

„Vegna þess að álagið hérna á deildinni varð eiginlega ómannlegt. Starfsfólk veiktist, hingað komu sjúklingar á gjörgæsluna með COVID-19. Hér var öllu umturnað."

Eftir Axel Jón Ellenarson

Elín Helga Sankó, heilbrigðisgagnafræðingur, starfar á Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi með starfsstöð á gjörgæsludeild sem er á sjöttu hæð spítalans í Fossvogi.

„Mitt starf er mjög fjölbreytt og skemmtilegt og hefur þróast mikið frá því ég byrjaði sem læknaritari á spítalanum. Þá fólst starfið aðallega í því að skrifa sjúkraskrár og skrá niður það sem gerðist á gjörgæslunni og svæfingunni, en þar sem læknarnir hafa tekið það að sér hefur starfið mitt breyst og það krefst þess að ég þrói starfshæfni mína samfara því. Ég er mikið í allskonar skráningum og eftirliti auk þess sé ég um að halda utan um vinnustundir læknanna á gjörgæslunni og á svæfingadeildinni. Einnig er ég tengiliður við iðnaðarmenn hér á deildinni og sinni ýmsum stoðþjónustubeiðnum í tengslum við starfsemi hennar.“

Spurð hvort starfinu fylgi ekki álag segir Elín að álagið sé mjög misjafnt, bæði verklega og tilfinningalega, þó er alltaf ákveðið tilfinningaálag að starfa á gjörgæsludeild spítalans. „Það fylgir starfinu slíkt álag þegar aðstandendur sjúklinga sem eru alvarlega veikir, mikið slasaðir, sjúklingar sem koma inn eftir alvarleg slys o.þ.h. Stundum reynir maður að halda slíku álagi frá en það tekst ekki alltaf, sérstaklega ekki ef lítil börn eiga í hlut eða ungt fólk í blóma lífsins. Það er líka erfitt að horfa upp á aðstandendur í sorg á erfiðum stundum eftir alvarleg slys eða veikindi. En samstarfsfólkið er yndislegt og stendur þétt saman.
Maður þarf að mynda góð tengsl innan spítalans líka því upplýsingar sem streyma hingað þarf að greina og senda áfram til úrlausnar. Hér á gjörgæslunni er að nokkru leyti sjálfvirk skráning yfir sjúklinga sem hingað koma sem kallast CIS-Gjörgæslukerfi en ég fylgi því líka eftir og hlutverk mitt er að ýta við læknum og hjúkrunarfræðingum ef það vantar upp á skráningu sjúklinganna. Þetta er svona eftirlit“, segir Elín.

 

Tilfinngalegt álag
Talandi um álag. Hvernig losar Elín um það álag sem hleðst upp í starfinu og hvernig ver hún frítíma sínum.
Elín segir að hún losi um það álag sem myndast í vinnunni með því að fara út og ganga. Hún losi sig við erfiðleika sem verði á vegi hennar í göngutúrunum. „Ég nýti líka frítímann með fjölskyldunni minni. Við eigum tvö börn og tvö barnabörn sem við njótum að verja tímanum með í sumarbústaðnum. En í vinnunni, ef það er mikið tilfinningalegt álag, sérstaklega þegar ung börn eru hér á deildinni, þá fer ég gjarnan í göngutúra. Mér finnst það mjög góð slökun og þá fer maður út í göngutúr og hengir erfiðleikanna á greinarnar hér og þar á leiðinni. Það er bara þannig,“ segir hún.

Þegar faraldurinn skall á landinu segir Elín að það hafi orðið algjör kollsteypa á starfinu hennar eins og svo margra annarra á spítalanum. „Vegna þess að álagið hérna á deildinni varð eiginlega ómannlegt. Starfsfólk veiktist, hingað komu sjúklingar á gjörgæsluna með COVID-19. Hér var öllu umturnað. Ég fór að vinna heiman frá, það er svo skrýtið að segja frá því, en við það lengdist vinnudagurinn minn um margar klukkustundir á dag. Ég kveikti á tölvunni klukkan hálf sjö á morgnana og slökkti jafnvel ekki á henni fyrr en hálf ellefu á kvöldin. Mér fannst erfitt að vera ekki í beinum tengslum við samstarfsfólkið, einskonar sektarkennd kom yfir mig að vera ekki inni á spítalanum, leið eins og liðhlaupa að vinna í örygginu heima. Svo kom þessi tilfinning um hvort maður væri að trufla samstarfsmenn sína með því að hringja í þá. Maður var að berjast við vonda samvisku eiginlega. Þetta var og hefur verið skrýtið ástand.“ segir Elín.

 

Heimilið er ekki vinnustaður
„Svo fór ég í bakinu við það að sitja á eldhúskolli við eldhúsborðið eða við borðstofuborðið tímunum saman við vinnuna heima. Ég hætti að hreyfa mig þegar ég fór að vinna heima. Heimilið er ekki vinnustaður í eðli sínu. Varla að maður stæði upp í hádeginu. Ég fór í aðgerð og síðan fór ég í veikindaleyfi til að jafna mig í bakinu og er nú nýlega farin að vinna aftur allan daginn þannig að maður er búinn að prófa ýmislegt á þessum skrýtnu tímum. Maður hefur líka lært að þekkja sín eigin þolmörk í lífi og starfi. Sko, maður getur orðið einmana að vinna heima. Maður hittir ekki vinnufélagana og dettur úr sambandið við þá.“ segir Elín að lokum.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)