Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. janúar 2021

Alltaf á vaktinni

Guðmundur Ólafur Ingólfsson, öryggisvörður hjá LSH.

„Það er stundum erfitt að snúa við aftur til baka eftir næturvaktirnar. Það á að vera fjögurra daga frí á milli vakta en maður er yfirleitt einn og hálfan sólarhring að jafna sig, fer eftir álagi á vöktunum.“

Eftir Axel Jón Ellenarson

Blaðamaður rölti niður á jarðhæð spítalans til að spjalla við Guðmund Ólaf. Ekki var um langa ferð að ræða, bara niður eina hæð og bankað á dyr sem virtust vera dyr á frekar þröngu herbergi. Inni var bankinu svarað með styrkum hljómi: „Kom inn!“ Þegar inn var komið bauð stórmenni blaðamanni sæti á móti sér með vingjarnlegri röddu, eins og öryggisverðir gera. Það er svolítið eins og að vera með hauspoka að taka viðtal við fólk með grímu sem nánast hylur allt andlitið en við létum það ekki stoppa okkur og lögðum af stað í samtalið.

„Þetta er góður vinnustaður og maður dáist að fólkinu hérna. Hvað það stendur sig vel ásamt auðvitað öllu starfsfólki spítalans. Í starfi mínu á Landspítalanum sinni ég eftirliti, vörslu og móttöku á fólki sem kemur í húsið. Við sjáum um stýringu á fólki inn í húsið og að allt sé í lagi; sóttvarnir, öryggi, taka við beiðnum frá deildum ef eitthvað bjátar þar á. Það er fátt sem okkur er óviðkomandi hér á spítalanum. Það er mikið leitað til okkar af gestum, starfsmönnum og öðrum sem sinna tímabundnum verkefnum eins og verktökum. Eins þurfum við að hafa eftirlit með búnaði og tækjum sem eru í gangi allan sólarhringinn. Við förum um allar deildir hússins og sinnum stökum verkefnum á nóttinni,“ segir Guðmundur.

Ekki á fullt daginn eftir næturvakt
„Við göngum 12 tíma, tvískiptar vaktir, fjórar dagvaktir og fjórar næturvaktir í senn með fjögurra daga hléum á milli. Þetta er mikil vinna á dagvöktum en rólegra á nóttinni nema eitthvað komi upp á eins og rafmagnsbilanir, tækjabilanir og annað í þeim dúr. Við gætum líka þurft að veita deildum aðstoð við erfiðar aðstæður á nóttinni án þess að ég sé að fara nánar út í það. Við vöktum og bregðumst við. Alltaf tilbúnir,“ segir hann.

En hefur pestarfaraldurinn breytt störfum Guðmundar? „Ja, það hefur í grunninn ekki breyst en áherslurnar hafa breyst í sambandi við sóttvarnir, spritt og grímunotkun. Það er viðbót. Í upphafi og í seinni bylgju sáum við um flutninga allra Covidsjúklinga. Gæta þurfti fyllsta öryggis, tryggja einangrun og vettvanginn og að því leyti vorum við í sóttvarnargöllum og það var nýtt fyrir okkur hér,“ svarar Guðmundur.
Varðandi hvíld og slökun eftir langar vaktir. Hvernig láta menn líða úr sér þegar þeir snúa sólarhringnum svona við? „Já, það má segja að fyrsti sólarhringurinn fari bara í að ná áttum, slaka á, hvíla sig og það er þannig líka eftir dagvaktatörnina. Maður fer ekki á fullt í að gera eitthvað daginn eftir vakt. Síðan finnst mér gott að fara í gönguferðir og bara hvíla mig. Það er stundum erfitt að snúa við aftur til baka eftir næturvaktirnar. Það á að vera fjögurra daga frí á milli vakta en maður er yfirleitt einn og hálfan sólarhring að jafna sig, fer eftir álagi á vöktunum,“ segir hann um vaktavinnuna.

Stytting vinnuvikunnar
Stytting vinnuvikunnar er ekki hafin hjá þér og hefst ekki fyrr en 1. maí. Hvernig leggst stytting vinnuvikunnar í þig spyr ég Guðmund. „Nei, styttingin er ekki hafin hjá mér og hefst ekki fyrr en 1. maí. Þetta leggst misjafnlega vel í mig. Það á að fara að kynna þetta fyrir okkur en það er ekki komið niður vaktaplan eða hvernig þau verða nema það er rætt um að maður geti valið sér vaktir. Maður á bara eftir að sjá hvernig þetta kemur út. Þó að 12 tíma vaktirnar séu erfiðar þá finnst mér þær ekki óyfirstíganlegar en maður skilur að það er ekki heilbrigt fyrirkomulag að vinna 12 stundir með þessum hætti. Hitt er heilbrigðara og fer betur með mann, að vinna skemmri vaktir. Okkar yfirmaður fer fljótlega nánar yfir fyrirkomulagið með okkur,“ segir Guðmundur og bætir við. „Ég þarf nú að nýta mér þjónustu Sameykis meira. Ég ætti að hafa gert meira af því í þessi 30 ár sem ég hef verið þarna. Kannski maður athugi með styrki og kannski helgarleigu á orlofshúsum.“