Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. janúar 2021

Skemmtilegt fólk

„Viðbragðstími okkar til að bregðast við flutningi á blóði og sýnum til greiningar eru 10 mínútur en helst innan 3 mínútna. Það er stundum hlaupið á milli deilda.“ Mynd/Axel Jón

„Því fylgir alltaf óvissa og við þurfum að vera við öllu búinn því við erum svo til þau einu, fyrir utan öryggisverðina og ræstingafólkið, sem förum á milli deilda. Hér gilda strangar reglur um samgang á milli deildanna vegna COVID-19,“

Eftir Axel Jón Ellenarson.

Nökkvi Elísson byrjaði á því að tilkynna blaðamanni, hóstandi í gegnum grímuna, að hann væri ekki með COVID-19 heldur með bronkitis hósta sem væri ekki smitandi. „Starf verkstjórans er margþætt. Hann sér um að stýra verkefnum sem snúa að öllum flutningum hér innanhúss, vörumóttöku, vörudreifingu, blóð, lyfja og sýnaflutninga, póstflutninga, umsjón með rúmalager spítalans og auðvitað flutninga á sjúklingum að ógleymdu öllu rusli spítalans. Hann hefur einnig umsjón með áætlunarbíl sem flytur bæði starfsmenn og sjúklinga á milli spítala. Þetta er svona í stórum dráttum starflýsingin en starfið er mjög skemmtilegt og gefandi,“ segir Nökkvi.

Rúmalager sjúkrahússins í Fossvogi sem Nökkvi stýrir er stór. Deildin afgreiðir á milli 40 – 50 rúm á dag. Þau þarf að þrífa og það tekur korter að sjá um hvert rúm á lagernum. Í því eru tveir fastir starfsmenn í dagvinnu og fjórir eftir klukkan þrjú til klukkan sex síðdegis, en annars er dagvinnu fyrirkomulag á flutningsdeildinni.

Nökkvi er búinn að starfa í tvö ár á LSH í Fossvogi og var falin yfirmannsstaða þar nýlega. Það er greinilegt að Nökkvi er yfirvegaður maður, réttur maður á réttum stað, því starfinu fylgir mikill erill og mörg þau mál sem upp koma krefjast fljótrar úrlausnar og því nauðsynlegt að geta haft yfirsýn yfir fjölbreytt verkefni. Starfssemi flutningsdeildarinnar er á ýmsum stöðum í húsinu. „Mitt fólk er á ýmsum stöðum í húsinu og er í ólíkum verkefnum. Fara þarf með póst milli staða, flytja sjúklinga í rúmum og hjólastólum á milli hæða og deilda eins og röntgen, í aðhlynningu vegna beinbrota og fá gifs, bara út um allt og mikill erill hjá öllum. Við eigum erindi á allar deildir sjúkrahússins en við flytjum ekki kóvid sjúklinga, alla aðra en þá. Þó fylgir því alltaf óvissa og við þurfum að vera við öllu búinn því við erum svo til þau einu, fyrir utan öryggisverðina og ræstingafólkið, sem förum á milli deilda. Hér gilda strangar reglur um samgang á milli deildanna vegna COVID-19,“ segir Nökkvi.

 

Spítalinn sefur aldrei
En hvernig breyttist starfið á spítalanum þegar COVID-19 hóf innreið sína í íslenskt samfélag? „Það fækkaði mikið sjúklingum vegna þess að reynt var að gera sem fæstar skurðaðgerðir, og þegar samkomubann var sett á fækkaði heimsóknum á slysó, eðlilega. En á móti kom að sérstaklega var mikið að gera í flutningum á grímum og búningum. Ruslið margfaldaðist líka því það var endalaust verið að henda einnota grímum og öðrum búnaði tengdum sóttvörnum. Maður þurfti að setja sig í aðrar stellingar varðandi allt og passa upp á smitvarnir, hópaskiptingar o.þ.h. Félagslega hefur þetta verið okkur á deildinni svolítið erfitt, eins og á öðrum vinnustöðum þar sem vaninn er að hittast í matar- og kaffitímum, en það er ekki hægt lengur eins og staðan er. Að öðru leyti er starfið eins. Ég er á bakvakt allan sólarhringinn og alltaf með símann á mér ef eitthvað óvænt kemur upp á eins og hópslys . Þá þarf ég að bregðast við, senda boð til fólks að sjá um rúm, sjá um flutning á vökva ef fólk þarf að fá vökva í æð og taka á móti vörum í sambandi við slík slys, lyf ofl. Við þurfum alltaf að vera á tánum ef það verða slys. Maður er alltaf í vinnunni þannig séð,“ útskýrir hann.

„Viðbragðstími okkar til að bregðast við flutningi á blóði og sýnum til greiningar eru 10 mínútur en helst innan 3 mínútna. Það er stundum hlaupið á milli deilda. Verkefnin hafa forgang eftir mikilvægi þeirra. En hvernig slakar Nökkvi á í svo annasömu starfi? „Ég slaka bara á með því að hafa gaman í vinnunni. Það er gott að starfa með fólki sem hefur húmor og ánægju af störfum sínu. Skemmtilegt fólk skiptir mig gríðarlega miklu máli því stressið getur aukist ef við lendum á vegg í samskiptum. Ég á við að það er ekkert gaman í vinnunni ef við erum ekki á sömu línu í verkefnunum, starfsmenn þurfa að þekkja sín hlutverk og reyna að láta allt ganga upp í þjónustunni við spítalann. Þannig deilum við stressinu en látum það ekki hvíla á einhverjum einum. Við erum saman í þessu og hjálpumst að. En heima fyrir nýt ég þess að verja tímanum með fjölskyldunni. Ég hef líka gaman að kvikmyndum og slaka á með því að hverfa inn í þann söguheim,“ segir Nökkvi að lokum.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)