Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. apríl 2021

Ekki herskár heldur ákveðinn

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu

„Eigingirnin á að fá sem minnst pláss í samfélaginu og við þurfum að gæta vel að því að kerfin okkar sjái til þess að allir leggi sanngjarnt framlag til samneyslunnar. Það er hin norræna fyrirmynd og draumur sérhvers manns.“

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson

Nýr formaður Sameykis, Þórarinn Eyfjörð, er borinn og barnfæddur Keflvíkingur. Snemma fékk hann áhuga á félagsstörfum og útivist. Hann segir að það hafi verið honum í blóð borið að starfa að félagsmálum sem hann hefur sinnt með einum eða öðrum hætti alveg frá því hann var í grunnskóla í Keflavík. Þórarinn kynntist lífsförunauti sínum Kristínu Jónsdóttur, forseta menntavísindasviðs Háskóla íslands, árið 1983 og gengu þau í hnapphelduna þremur árum síðar. Eiga þau tvö uppkomin börn, Sigrúnu Eyfjörð og Þorstein Eyfjörð. Saman njóta þau útvistar af mörgum toga, fjallgöngur og ferðalög um hálendi Íslands, en ekki síst silungsveiði við fagra læki og heiðarvötn seint á sumarkvöldum.

 

Réttindi launafólks stendur næst hjartanu
En hvers vegna sóttist Þórarinn eftir því að verða formaður Sameykis?

„Mér fannst það vera eðlilegt í ljósi þess sem ég hef verið að fást við á starfsævinni og auðvitað fyrir Sameyki í seinni tíð. Það má segja að það hefur einhvern veginn þróast þannig að mitt hlutskipti í lífinu hefur verið að berjast fyrir réttlæti og jafnræði á þeim vettvangi sem ég hef starfað á. Ég hef oft verið kominn sjálfkrafa í hagsmunagæslu í því umhverfi sem ég hef starfað í. Þetta er kannski bara í blóðinu. Ég ræð ekki við það“, segir Þórarinn og brosir.

„Hjá Sameyki hefur það staðið nærri hjarta mínu að starfa að hagsmunamálum félagsmanna okkar og berjast fyrir réttindum þeirra. Þess vegna ákvað ég að bjóða fram krafta mína. Upphaflega þróuðust stéttarfélög með þeim hætti að þau börðust fyrir grundvallarmannréttindum, fyrir mannsæmandi launum og til að hjálpa verkafólki að komast af; að launafólk gæti séð sér og sínum farborða af launum sínum. Síðar jókst umfang þeirra og þau fóru að berjast á sviði heilbrigðismála, öryggismála, menntamála og þar fram eftir götunum. Þetta voru stóru málin í upphafi.

Nú í dag berjast stéttar- og verkalýðsfélög fyrir sanngjarnara og réttlátara þjóðfélagi sem hefur leitt af sér ákveðna velmegun og það öryggisnet sem við búum við í dag. Þó að mikið hafi áunnist með mikilli baráttu er ekki þar með sagt að við höfum náð öllum okkar markmiðum. Grunnur allra verkalýðsfélaga er að berjast fyrir betri kjörum, réttindum og jafnrétti í samfélaginu,“ segir hann.

 

Sameyki klettur í hafinu
Hafa þarf í huga að kjör eru ekki bara launaumslag. En hvað eru þá kjör? Kjör eru einnig tækifæri til menntunar, tækifæri til að njóta sanngjarnrar heilbrigðisþjónustu, að það sé öryggisnet til staðar ef við verðum fyrir áföllum í lífinu, eins og t.d. atvinnumissi og atvinnuleysi. Kjör eru líka sú mikilvæga þjónusta sem Sameyki veitir sínum félagsmönnum, bæði hvað varðar menntun, heilsu, fræðslu sem og að veita ýmsa styrki úr sjóðum félagsins. Þá er mikilvægt að skrifstofa félagsins sé einskonar umferðar- og félagsmiðstöð félagsmanna þar sem þeir geta komið og fengið leiðsögn á sviði kjaramála og um réttindi almennt. Mér finnst ákaflega mikilvægt að allir félagsmenn okkar, og þá ekki síst þeir sem hafa veikara bakland en aðrir, viti af því að Sameyki er sá klettur í hafinu sem þeir geta leitað til. Heilsa félagsfólks skiptir miklu máli og Sameyki ásamt öðrum stéttarfélögum hafa komið upp öflugum stuðningskerfum eins og við sjáum til dæmis hjá Virk,“ segir Þórarinn ákveðinn.

Helstu baráttumál Sameykis framundan er stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki og dagvinnufólki. En hvernig mun Sameyki leiða þessi verkefni? Verður það gert af hörku og með því að vera herskár eða af festu og ákveðni?

„Ég er ekki mjög herskár, heldur frekar ákveðinn. Þessi verkefni eru flókin þegar litið er til styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki því vinnuumhverfið er flókið í vaktavinnukerfinu. Það eru að koma í ljós mörg atriði sem samningsaðilar komu ekki auga á upphaflega í samningsgerðinni en eru þó kannski ekki óvænt. Þau eru fjölmörg atriðin sem þarf að leysa og veita aðstoð við því það hefur komið í ljós hversu ólíkir vinnustaðirnir eru þar sem unnin er vaktavinna. Það þarf því að leysa vandamálin eftir því hvaða vaktakerfi hentar þessum ólíku vinnustöðum svo koma megi innleiðingunni til framkvæmda og sem henta okkar félagsmönnum sem best. Þessi kerfisbreyting er bylting á vinnumarkaði og um breytingarnar þarf að nást sátt,“ segir hann enn fremur.

 

Launamarkaðir í ójafnvægi
Þórarinn Eyfjörð segir að annað mjög mikilvægt verkefni sé jöfnun launa milli markaða, þ.e. að jafna laun opinberra starfsmanna við laun sem greidd eru á almennum markaði.

„Það hefur árum saman verið bent á það að laun á almennum markaði hafa verið betri heldur en launasetning opinberra starfsmanna. Það helgaðist af því að menn réttlættu svoleiðis ójafnvægi launa milli markaða með því að segja að lífeyrisréttur opinberra starfsmanna væri betri en á almennum markaði. Þannig var það réttlætt að laun opinberra starfsmanna væru lægri en á almennum markaði. Þessi rök ganga ekki upp! Þessi réttindamál hafa verið jöfnuð. Það var gengið frá samkomulagi árið 2016 að launin milli markaða skyldu einnig jöfnuð á næstu tíu árum þaðan í frá. Nú eru bráðum fimm ár liðin.

Það er nú eitt af stóru hagsmuna,- réttinda og kjaramálum opinberra starfsmanna að koma þessu til leiðar. Það hefur verið ágæt vinna í gangi í þessu verkefni en við verðum að koma því í höfn. Við megum ekki sleppa af þessu hendinni og þetta verður ekki gefið eftir. Samhliða þessu var samið um launaþróunartryggingu sem er hluti af sama meiði.

Launaþróunartryggingin er fólgin í því að laun opinberra starfsmanna þróist til jafns við laun almenna markaðarins á milli kjarasamninga og skili þeim hækkunum sem verða á almennum markaði einnig til opinberra starfsmanna. Að launin þróist jafnt á launamörkuðum. Raunin er sú að laun á almenna markaðnum hafa þróast hraðar en laun opinberra starfsmanna og það er vegna þess að opinberir starfsmenn búa frekar við niður njörvað launaþróunarkerfi milli samninga. Af þessum sökum þarf að tryggja þetta kerfi betur og að það skili sér ábyggilega,“ segir hann.

 

Stofnanasamningar og starfsmatskerfið
En hvað segir Þórarinn um launamyndunarkerfin, stofnanasamningana og starfsmatskerfið?
„Jú, næst á dagskrá er að skoða launamyndunarkerfin. Opna þarf stofnanasamningana ríkis megin og þróa starfsmatskerfið hjá borg og sveitarfélögum mun betur en við höfum gert hingað til. Það mun kalla á töluverða vinnu og samtal við atvinnurekendur hjá ríki og sveitarfélögum. Mín skoðun er sú að við gætum unnið með starfsmatskerfið þannig að það væri meira lifandi og mun árangursríkara heldur en það er í dag,“ greinir Þórarinn frá.

„Auk þess er Sameyki að vinna að fleiri mikilvægum verkefnum. Mig langar til að nefna húsnæðismálin. Sameyki er ásamt öðrum stéttarfélögum í BSRB aðili að íbúðafélaginu Bjargi sem byggir íbúðir fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum sem hafa verið virkir á vinnumarkaði og eru fullgildir félagsmenn Sameykis. Uppbyggingin hjá Bjargi hefur verið mikil og góð. Það er fyrirsjáanlegur skortur á húsnæðismarkaði og við viljum að félagar í Sameyki njóti ákveðins öryggis að þessu leyti. Þetta er okkar öflugasta verkfæri til að tryggja húsnæði fyrir okkar félagsmenn sem hafa lægstu tekjurnar. Svo er vinna í gangi við stofnun húsnæðisfélagsins Blær sem er af svipuðum toga en er fyrir hinn almenna markað,“ bætir Þórarinn við.

 

Opið og gegnsætt stéttarfélag
„Það er ýmislegt í þessu nýja sameinaða félagi Sameyki sem kallar á að við styrkjum enn frekar innra starfið og starfið meðal félagsmanna okkar. Þá er ég að tala um fagfélögin okkar og fagstéttir. Þetta eru oft öflug félög eins og Heilbrigðisgagnafræðingar, Félag íslenskra félagsliða, Félag heilbrigðisritara, Félag áfengisráðgjafa, Félag Strætóbílstjóra svo ég nefni nokkur. Ég er áhugasamur að bjóða fleiri fagfélögum til okkar. Svo eru einnig innan Sameykis stórir hópar eins og starfsmenn frístundamiðstöðva, sem gegnir mikilvægum störfum hjá Reykjavíkurborg og gaman verður að starfa með. Þetta innra starf þarf að styrkja og opna félagið enn frekar fyrir þessum hópum.“ 

Þórarin segir að það sé öllum stéttarfélögum mjög mikilvægt að hafa opna og gegnsæja starfsemi. Félögum Sameykis þarf að vera vel ljóst hvað félagið er að gera á hverjum tíma og vissir um að af því séu fluttar fréttir; að það sé ljóst að sambandið þarna á milli sé lifandi.

„Við höfum líka lagt mikla áherslu á þjónustuþættina og starfsemi sjóðanna. Félagar okkar eiga rétt á að þiggja þjónustu úr þessum sjóðum og ég held að þeir séu orðnir vel meðvitaðir um þetta innra starf. Við höfum líka verið í mikilli uppbygginu á orlofskerfinu okkar og einnig endur- og símenntunarkerfinu en ætlunin er að styrkja það starf enn frekar þannig að félagar viti betur hvaða menntunar- og starfsþróunarmöguleika þessi kerfi veita þeim. Við stefnum að því með okkar samstarfsaðilum að efla mikið Fræðslusetrið Starfsmennt og Framvegis – miðstöð símenntunar á næsta ári því þar er augljóslega veitt mjög mikilvæg þjónusta. Mig langar til að opna félagið meira og eiga oftar beint samtal við okkar fólk. Nú á þessum tímum höfum við nýtt okkur tæknina og haldið fundi sem heppnast hafa vel í gegnum fjarfundabúnað. Það kemur samt aldrei í stað þess að fara til starfsfólksins, taka í höndina á því eins og við gerðum hér áður fyrr og eiga með þeim beint, lifandi samtal í þeirra eigin umhverfi. Þetta munum við gera þegar samfélagið opnar aftur. Félagið er fyrir félagsmennina,“ segir nýr formaður Sameykis.

 

Norræna fyrirmyndin
Það er oftast litið til norrænu landanna þegar heimurinn er að leita að módeli fyrir bestu mögulegu útfærsluna á samfélagi. Þar er að finna módel sem aðrir líta til sem draumasamfélags, sem sanngjarnt samfélag. Tölfræðilegir mælikvarðar sýna t.d. að hinn svokallaði ameríski draumur sé í raun og sann norrænt samfélag. Samkvæmt þeirri kenningu hefur almenningur bestu tækifærin á góðu lífi og búa við mesta félagslega öryggið á Norðurlöndunum. Það er draumurinn um hið réttláta samfélag.

Kjara- og stéttabarátta er alltaf framþróun, eða á alltaf að vera framþróun. Norðurlöndin hafa komið upp þessum grunnstoðum samfélagsins; heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi, menntakerfi og öryggiskerfi fyrir þegna sína sem er ólíkt öllu öðru. Stærsti einstaki áhrifavaldurinn í því eru heildarhagsmunasamtök almennings, starfsemi stéttarfélaga. Þau hafa verið í öflugra samtali við stjórnvöld í þessum heimshluta heldur en annars staðar á hverjum tíma. Að vísu eru til sterk öfl sem vilja að samtal við almenning verði sem minnst. Því jafnvel stjórnvöld, fjármálaöfl, eignafólk – frjálshyggjan, vill geta farið sínu fram. Fjálshyggjan er skipulögð með margvíslegum áróðri og hefur hamlandi áhrif á jákvæða þróun á kjörum, réttindum og öryggi almennings í þessu landi. Þessi vá blasir við,“ segir Þórarinn.

 

Almenningur og auðlindir
Þá segir Þórarinn að hlutverk stéttarfélaga sé að standa vörð um hagsmuni almennings, alveg óháð stjórnmálaöflum.

„Við sem tilheyrum almenningi í þessu landi vitum vel hvernig það er að vinna fyrir brauði okkar; koma börnunum okkar til mennta, hugsa um okkar veiku vini og ættingja og standa vörð um sameiginlega hagsmuni almennings. Eigingirnin á að fá sem minnst pláss í samfélaginu og við þurfum að gæta vel að því að kerfin okkar sjái til þess að allir leggi sanngjarnt framlag til samneyslunnar. Það er hin norræna fyrirmynd og draumur sérhvers manns. Á Íslandi í dag eru nú örfáir einstaklingar sem hafa aðgang að auðlindum landsins og því sem þær gefa af sér. Við verðum að standa vörð um auðlindir okkar, að þær séu sameiginlegar en ekki eign fárra. Þetta hefur skapað gríðarlegan stéttarmun. Við megum ekki tapa þessari baráttu fyrir ásókn frjálshyggjunnar í auðlindir okkar. Hvorki nú né í framtíðinni. Við þurfum að ná aftur til okkar eignum almennings og við verðum að vinna saman að þessari leiðréttingu,“ sagði Þórarinn Eyfjörð nýr formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu að lokum.

Viðtalið birtist fyrst í 2. tbl. 2021.