Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

7. febrúar 2023

Áhersla lögð á virkt samtal

Sigurður Rúnar Hafliðason formaður Fangavarðafélags Íslands. Ljósmynd/Axel Jón

Streita er, og verður alltaf, viðloðandi í þessu starfi. Við erum auðvitað að vinna með mjög erfiða einstaklinga og samkvæmt rannsóknum danskra yfirvalda kemur í ljós að miklu meiri streita fylgir starfi fangavarðar heldur en annars staðar í löggæslunni. Einnig er áfallastreita 10 prósentum meiri í störfum fangavarða en hjá lögreglu.

Eftir Axel Jón Ellenarson

Sigurður Rúnar Hafliðason er nýr formaður Fangavarðafélags Íslands og tekur við formennskunni af Victori Gunnarssyni. Hann er 45 ára gamall, fjögurra barna faðir, og hefur starfað á Litla-Hrauni við fangavörslu í rúmlega tíu ár. Hann er alinn upp í Gilsfirði í botni Breiðafjarðar og er menntaður trésmiður en fjölskyldan býr nú á Selfossi. Sigurður Rúnar segist hafa ílengst sem fangavörður eftir að eiginkona hans hafði beðið hann um að sækja um sumarstarf sem fangavörður á Litla-Hrauni svo hún fengi að njóta fleiri samverustunda með eiginmanni sínum og fjölskyldu. Fangavarðafélagið hefur undanfarið vakið athygli á málefnum fangavarða, starfsaðstöðu og heilsu þeirra í starfi. Sigurður Rúnar segir áríðandi að málefni fangavarða meðal almennings og stjórnvalda fái að heyrast, því mikilvægi þeirrar grunnþjónustu sem felast í þessum erfiðu störfum varðar alla og áhersla verði lögð á virkt samtal.


Konan vildi mig heim
Spurður hver sé bakgrunnur hans og hvernig það hafi komið til að hann sé í starfi fangavarðar sagði Sigurður: „Ég er menntaður trésmiður. Konan mín lét mig sækja um sumarstarf til þess að fá að hafa mig meira heima því ég var mikið að smíða út á landi. Mér fannst það góð hugmynd,“ segir hann og brosir. „Ég vann mikið út á landi. Er alinn upp á Vestfjörðum og sem smiður fer maður þangað sem verk er að vinna og maður er fenginn í verkefni af fólki sem maður þekkir eins og gengur.“

Sigurður segir að þónokkuð sé um að trésmiðir starfi sem fangaverðir. „Störf fangavarða og trésmiða fara nokkuð vel saman. Í vaktavinnunni getur maður gert annað aukalega með starfinu eins og að smíða. Ég er t.d. núna að byggja mér annað íbúðarhúsið á síðastliðnum átta árum. Ég er eiginlega bara alltaf að, er ofvirkur má segja, vinnusamur og duglegur að eðlisfari.“


Kostur fyrir formann að vera ýtinn
Hvernig kom það til að Sigurður varð formaður Fangavarða-félagsins? „Félagið eiginlega bara dó. Við erum í þeim leiðangri að endurvekja það og koma á verkferlum sem ættu að tíðkast í okkar fagi. Eftir stofnanasamninginn sem var gerður 2017 fór að halla verulega undan fæti hjá FVFÍ, aðallega vegna þreytu í fyrri stjórn félagsins þó vilji hafi verið til að gera betur. Fyrrum formaður, Victor Gunnarsson, fékk mig til starfa sem varaformaður og saman fórum við að reyna að ná samtali við stofnanir, stjórnmálin, stjórnendur og starfsfólk vinnustaðanna með það að markmiði að bæta kjör og starfsumhverfi fanga-varða. Ég bauð mig svo fram sem formaður því ég vildi bæta samtalið enn meir við stjórnvöld. Það er augljóst að formaður fagfélags eins og FVFÍ er í sterkari stöðu til að beita sér í samtalinu við viðsemjendur og gera það virkara en ef viðkomandi væri á bak við formann. Ég gerði það upp við mig að annaðhvort myndi ég hætta þessari baráttu eða halda henni áfram með öflugri hætti sem formaður. Ég valdi síðari kostinn. Nú hef ég náð að fá fundi á öllum vígstöðvum og hlakka til starfsins sem því fylgir – þó staðan geti verið snúin og maður fái ekki allt það sem maður vill. En á móti er ég er ýtinn og geng á eftir hlutunum, sem ég held að sé kostur fyrir formann félagsins þegar litið er til framtíðar. Mikilvægt er að samskipti við alla séu góð, árangursrík og virk.“


Stytting vinnuvikunnar kom ekki nógu vel út fyrir fangaverði
Sigurður segir að ljóst sé að félagsfólk í Fangavarðafélaginu hafi lækkað mikið í launum vegna styttingar vinnuvikunnar í vaktavinnu. Vaktahvatinn virkar ekki sem skyldi og til að ná sömu launum þarf að vinna fleiri vaktir í mánuði en þurfti fyrir breytinguna.

„Það er alveg ljóst að fangaverðir hafa lækkað verulega í launum með tilkomu styttingar vinnuvikunnar og við lítum svo á að fangaverðir hafi lækkað mest þeirra sem starfa í vaktavinnu við löggæslu í launum. Við höfum heldur ekki fengið áheyrn frá fjármálaráðuneytinu vegna þessa máls. Það hefur farið mikil vinna, tími og orka, í að rétta af þá skekkju sem kom fram vegna breytinganna í vaktavinnunni.“


Áfallastreita meiri í störfum fangavarða en annars staðar innan löggæslunnar
Þegar Sigurður er inntur eftir því sem fangaverðir hafa rætt um og verið talsvert í umræðunni; að mikið álag fylgi störfum fangavarða, og streita og kulnun sé kannski fylgifiskur starfsins, svarar hann að ástandið sé ekki nógu gott. Hann segir að þó ríkið hafi lagt 250 milljónir í málefni fangelsanna þá dugi það engan veginn til að leysa þann vanda sem blasi við.

„Ástandið hefur ekki verið gott. Við sjáum að ríkið er að setja 250 milljónir fyrir þetta ár í reksturinn, en þá var bætt við 150 milljónum fyrir síðasta ár til að geta haldið rekstrinum í horfinu. Stofnunin okkar hefur í raun og veru verið fjársvelt í alla staði og það hefur ekki verið sveigjanleiki um eitt né neitt. Í því ljósi má segja að FVFÍ hefði mátt standa sig betur í hagsmunabaráttunni fyrir stofnunina og starfsfólkið sjálft. Úr því verður nú bætt. Nú vona ég að fangaverðir í samvinnu við stofnunina vinnum saman að því að vekja athygli á stöðunni sem nú er uppi og berjumst saman fyrir rekstri hennar. Einnig er þarft verk að vekja athygli á að störf fangavarða eru mjög mikilvæg fyrir allt samfélagið því störf okkar eru hluti af grunnþjónustunni.“

Sigurður leggur þunga áherslu á að streita verði alltaf fylgifiskur fangavörslu. „Streita er, og verður alltaf, viðloðandi í þessu starfi. Við erum auðvitað að vinna með mjög erfiða einstaklinga og samkvæmt rannsóknum danskra yfirvalda kemur í ljós að miklu meiri streita fylgir starfi fangavarðar heldur en annars staðar í löggæslunni. Einnig er áfallastreita 10 prósentum meiri í störfum fangavarða en hjá lögreglu. Á Íslandi starfa fangaverðir við slæmar aðstæður. Við erum í mjög litlu og þröngu rými að vinna með erfiða einstaklinga, eins og ég sagði áðan, og starfsaðstaðan er mikilvægur þáttur í að sporna gegna áföllum vegna pústra og stimpinga við skjólstæðinga stofnunarinnar. Núna eru fangaverðir farnir að opna augun fyrir þessu og viðurkenna sína andlegu líðan meira en áður. Það er fyrsta skrefið svo hægt sé að hjálpa þeim í þessu erfiða umhverfi.“


Ný starfsaðstaða í pípunum
Til stendur að reisa nýja starfsmannaaðstöðu, fyrst til bráðabirgða, á Litla-Hrauni. Fangaverðir hafa fengið að vera með í ráðum hvernig starfsumhverfi þeirra verður þar í framtíðinni og Sigurður segir að það verði mikil bylting að komast í stærri starfsaðstöðu en þá sem nú er. Aðalvarðstofa þeirra í fangelsinu á Litla-Hrauni er núna í litlu rými inni á lagnagangi sem kallast tunnan og þar er ekki einu sinni salernisaðstaða.

„Þessi vinnuaðstaða er ekki góð en það verður mikil breyting á þegar ný starfsaðstaða verður að veruleika. Við erum að fá mun rýmri starfsaðstöðu fyrir fangaverði og hafin verður uppbygging á þessu ári, fjármagnið er komið og fangaverðir koma að því að móta sitt starfsumhverfi sjálfir. Ég er bjartsýnn og spenntur fyrir framhaldinu,“ segir Sigurður Rúnar að lokum.

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)