Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. apríl 2023

Maður verður að treysta fólki og meina það

Markús H. Guðmundsson er forstöðumaður Hins hússins. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson.

„Það þýðir ekki að deila út verkefnum til fólks, en treysta þeim svo ekki fyrir þeim. Maður verður að treysta fólki og meina það. Það er ekki nóg að segja það við hátíðleg tækifæri, heldur verður það að koma frá hjartanu, að því sé treyst fyrir verkefnum og sínum störfum hundrað prósent.“

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson, Heiða Helgadóttir

Markús H. Guðmundsson er forstöðumaður Hins hússins sem hlaut viðurkenninguna Stofnun ársins 2022 – borg og bær í hópi meðalstórra stofnana. Hann er menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur og hefur starfað allan sinn starfsferil með ungmennum. Markús er Reykvíkingur og ólst upp í Safamýrinni. Hann segist vera í hjarta sínu skáti og hefur starfað í Hjálparsveit skáta um langt skeið.

Hitt húsið er staðsett við Rafstöðvarveg í Elliðárdal og er miðstöð ungs fólks sem er rekin af Reykjavíkurborg og er opin öllu ungu fólki á aldrinum 16–25 ára. Þar koma ungmenni saman til að efla sig og njóta fjölbreyttrar samveru og samstarfs. Í Hinu húsinu eru fundarsalir, málstofur, leikherbergi, tónleikasalur, stúdíó og mjög góð aðstaða og aðgengi fyrir fatlaða.


Hugmyndafræði Hins hússins
Markús segir að helsta og mikilvægasta hlutverk starfseminnar sé að hjálpa ungmennum og veita þeim aðstöðu til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Starfið er ólíkt starfsemi félagsmiðstöðva, því gerðir eru samningar við ungmennin sem fá lykla að húsnæðinu þannig að þau geta komið þegar þeim hentar til að sinna sínum hugðarefnum og verkefnum. Einnig nýta sér aðstöðuna önnur félagasamtök til að halda ráðstefnur, fundi o.fl.

„Hitt húsið er ungmennahús, miðstöð ungs fólks í frítíma. Ungmennin hafa aðgang að ýmsum deildum sem er í boði fyrir þau. Við erum t.d. með upplýsingadeild, atvinnu- og forvarnadeild og menningardeild, og svo erum við með frístund fyrir fatlaða, þannig að fjölbreytnin er mjög mikil. Hugmyndafræðin að baki starfseminni er komin frá Norðurlöndunum og við fylgjumst vel með og fáum hugmyndir þaðan hvernig unnið er með ungmennum til að efla þau og þroska hæfileika þeirra.“

Hitt húsið er í öflugu samstarfi við stofnanir eins og tónlistarhús, framhaldsskóla og fræðslumiðstöðvar. Framhaldsskólarnir nýta sér aðstöðuna sem er í boði, æfa m.a. söngleiki og nýta sér stúdíó til hljómsveitaræfinga. Þá er samstarf við öflugt ráðgjafateymi sem svarar spurningum ungmenna í gegnum þjónustusíðuna Áttavitann.

„Við erum með samninga við u.þ.b. þrjátíu hljómsveitir sem æfa í stúdíóinu okkar. Einnig erum við með Áttavitann sem er þjónustuvefur fyrir ungmenni þar sem öflugt ráðgjafateymi svarar spurningum þeirra, sem eru auðvitað mjög fjölbreyttar. Teymið samanstendur af fagfólki sem vinnur markvisst að því að leiðbeina ungu fólki í réttan farveg í lífinu á skjótan og aðgengilegan hátt. Ráðgjafarnir eru samstarfsteymi og hver og einn hefur sitt sérsvið. Dæmi um sérsvið þeirra má nefna ráðgjöf um kynlíf, námsráðgjöf, ráðgjöf um þunglyndi, fíknivanda, atvinnumál, lélega sjálfsmynd og ástarsambönd. Við erum mjög stolt af þessu verkefni og Áttavitinn er vel nýttur af ungmennunum okkar. Við erum mikið í að bjóða ungmennum upp í dans, ef svo má segja, og aðstoða þau að ná því fram sem þau sækjast eftir, t.d. ef þau eru í atvinnuleit þá hefjum við undir eins samstarf við Vinnumálastofnun o.s.frv. Einnig ef þau vilja hefja ákveðið nám þá vinnum við með þeim að ná því markmiði.


Samstarf grundvöllur Hins hússins
Markús segir að fjármögnun starfseminnar sé með fjölbreyttum hætti. Hitt húsið stendur að ýmsum viðburðum eins og Músíktilraunum og Götuleikhúsinu. Þá er gott samstarf við fyrirtæki og stofnanir lykilatriði svo ungmennin geti framkvæmt það sem stendur hjarta þeirra næst.

 


Markús segir að Hitt húsið sé ekki einungis eitthvert hús, Hitt húsið sé hugmyndafræði og vinnan felist í að vinna með ungu fólki í Reykjavík. Í því sambandi skipti traust öllu máli innan starfshópsins.

„Ungmennin elska líka að vera í erlendum samskiptum við aðrar álíka ungmennamiðstöðvar á Norðurlöndunum. Við heimsækjum þau og þau heimsækja okkur. Þetta samstarf er nú komið á fullt eftir að heimsfaraldrinum lauk. Það er þó mikilvægast að rækta garðinn sinn áður vel hér. Þegar hann er orðinn blómlegur, þá fyrst er forsenda til að fara út fyrir landsteinana og segja frá því sem við erum að gera og deila því með öðrum. Við hugsum alltaf fyrst um það hvað ungmennunum er fyrir bestu. Fókusinn er alltaf á velsæld ungmennisins – einstaklinginn fyrst og fremst.“


Álag og streita einangrar ungmenni
Markús segir að ungmenni séu venjulega undir miklu álagi á viðkvæmu lífsskeiði og þar séu nokkrar skuggahliðar.

„Ungmennin eru oftar en ekki í stífu framhaldsnámi sem hefur verið stytt um eitt ár. Þau eru jafnvel í vinnu samhliða náminu og álag á þau hefur aukist líka þess vegna. Þau hafa ekki jafn mikinn tíma til að sinna mikilvægri þörf til að lifa félagslífi og það kemur mér mjög á óvart að ekki sé búið að rannsaka þessi áhrif vegna styttingar framhaldsnámsins á líðan þeirra. Ákvörðun um styttingu framhaldsnámsins var, má segja, tekin of fljótt og einhliða. Það hefðu þurft að liggja fyrir gögn um áhrif þess á líðan þeirra. Þegar svona afdrifarík og stór breyting er gerð þarf að gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem hún hefur á ungmennin seinna meir. Brottfall ungmenna úr framhaldsskólanámi er of mikið og ein skuggahliðin á því er að þau eru ekki í virkni, þau einangra sig og þeim líður ekki vel. Við sjáum að um 500 ungmenni fengu fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg bara í janúar sl. Það er slæmt að verða vitni að þessu. Þetta þarf að rannsaka og við þurfum að koma þessu fólki til hjálpar. Það er mjög erfitt að fylgjast með því þegar ungmennin detta úr virkni eftir tíunda bekkinn, taka bara fyrstu mánuðina í framhaldsskóla og detta síðan út og einangra sig frá umheiminum. Enginn virðist vera að rannsaka þetta og hverjar ástæðurnar eru fyrir þessu brottfalli. Við þurfum að gera betur þarna. Það er ekki hægt að hafa það viðhorf til þessa hóps, að hann sé bara ákveðin prósentutala sem ekkert er hægt að gera fyrir því staðan sé almennt svo góð. Við getum ekki afneitað þessum hópi,“ segir hann.


Mjög glöð að fá viðurkenninguna Stofnun ársins 2022
Hjá Hinu húsinu starfa 65 manns og Markús segir að mikið sé lagt upp úr að starfsfólkinu líði vel í vinnunni, finni að það njóti trausts og sé öruggt. Viðurkenningin Stofnun ársins – borg og bær hafi verið þeim ákaflega mikil hvatning og starfsfólkið sé allt enn í sigurvímu vegna þess.

„Þessi viðurkenning kom okkur algjörlega á óvart, ekki þar fyrir að við vitum að hér er gott að starfa, en þetta er mikið búst fyrir okkur öll. Við erum enn bara að njóta. Við höfum alltaf tekið þessa könnun alvarlega og nýtt okkur niðurstöðurnar úr henni til að bæta vinnustaðinn. Það höfum við gert með því að taka markvisst á þeim þáttum í könnuninni þar sem við höfum þurft að bæta okkur. Síðan verðum við alltaf að vera vakandi fyrir því að viðhalda þeim góðu niðurstöðum sem við höfum náð, áður og nú, úr könnuninni. Ég held að það skipti öllu máli á almennt á vinnustöðum að starfsfólkinu líði vel. Þá gengur allt betur. Ég legg mikla áherslu á það hjá okkur, enda skilar góð líðan starfsfólksins sér til þeirra sem við erum að vinna með – ungmennunum sjálfum í Reykjavík. Mitt hlutverk er að sjá til þess að ungmennunum líði líka vel hér og ég hef alltaf lagt mig fram um að sýna þeim einlægan áhuga á því sem þau eru að gera hér í Hinu húsinu. Ég hef ætíð litið svo á að það sé mitt hlutverk. Almennt séð er orðspor starfseminnar að það sé gaman að vinna í Hinu húsinu og við höfum aldrei staðið frammi fyrir því að geta ekki ráðið til okkar starfsfólk til starfa á fjölbreyttum vinnustað við krefjandi störf.“

 


„Þessi viðurkenning kom okkur algjörlega á óvart, ekki þar fyrir að við vitum að hér er gott að starfa, en þetta er mikið búst fyrir okkur öll. Við erum enn bara að njóta.“


Mikilvæg stofnun í grunnþjónustunni
Hitt húsið fékk skýr skilaboð í heimsfaraldrinum um hvert þeirra hlutverk væri þegar öllu var lokað. Hlutverk Hins hússins var að halda starfseminni í fullum gangi, enda mikilvæg stoð í grunnþjónustunni.

„Við fengum skýr skilaboð frá Menntamálaráðuneytinu og Heilbrigðisráðuneytinu að við máttum ekki loka. Við vorum allt í einu skilgreind sem framlínustarfsfólk sem auðvitað vakti okkur enn betur til vitundar um mikilvægi starfseminnar. Við vorum þá að taka á móti hópum fatlaðra sem komu hingað í lok skóladagsins. Við þurftum að hólfa þetta stóra hús niður eftir hópum og vorum með sóttvarnateymi því við urðum að halda starfseminni gangandi. Þess vegna er líka gaman að fá þessa viðurkenningu núna eftir þennan lærdómsríka og erfiða álagstíma sem fylgdi faraldrinum. Þá hugsaði ég líka með mér hvernig hópnum liði eftir að hafa gengið í gegnum álagið sem fylgdi faraldrinum. Það hefur nú komið vel í ljós, það sem ég hef haft á tilfinningunni, að við komum vel undan þessu mikla álagi og okkur líður vel,“ segir hann og brosir.

Markús segir að Hitt húsið sé ekki einungis eitthvert hús, Hitt húsið sé hugmyndafræði og vinnan felist í að vinna með ungu fólki í Reykjavík. Í því sambandi skipti traust öllu máli innan starfshópsins.

„Það þýðir ekki að deila út verkefnum til fólks, en treysta þeim svo ekki fyrir þeim. Maður verður að treysta fólki og meina það. Það er ekki nóg að segja það við hátíðleg tækifæri, heldur verður það að koma frá hjartanu, að því sé treyst fyrir verkefnum og sínum störfum hundrað prósent. Annars virkar vinnustaðurinn alls ekki. Einnig er mikilvægt að starfsmanninum sé treyst til að áhrif á starf sitt og hvernig það þróast áfram,“ segir Markús að lokum.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)