Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

28. apríl 2023

Þurfum að fá stéttastjórnmál í tísku á ný

Stefán Ólafsson, prófessor emeritus. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir.

„Aukinn ójöfnuður í tekjum og eignum skilar sér í auknum pólitískum áhrifum. Með auknu auðræði kaupir efnafólk sér stjórnmálaáhrif og fær stjórnmálamenn til að móta stefnu sem gagnast þeim ríkustu mest.“

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Heiða Helgadóttir

Stefán Ólafsson, prófessor emeritus, lauk doktorsprófi í félagsfræði árið 1982 frá Oxford-háskóla á Englandi og starfaði við Háskóla Íslands frá 1980 til ársins 2020 þegar hann réð sig í fullt starf hjá Eflingu sem sérfræðingur á sviði rannsókna á vinnumarkaðnum. Af ritum hans má nefna bækurnar Hagvöxtur og hugarfar frá 1996, Íslenska leiðin frá 1999, Ójöfnuður á Íslandi sem kom út árið 2018 og svo nýjustu bók hans Baráttan um bjargirnar með undirtitlinum Stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensks samfélags sem kom út á síðasta ári. Bókin var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna og má segja að hún sé tímamótaverk sem afhjúpar hvernig verkalýðshreyfingin hefur mótað íslenskt samfélag fram eftir tuttugustu öldinni til 1990 þegar sérhagsmunaöfl yfirstéttarinnar tóku yfir velferðarríkið.

Vegna djúprar og skarprar þekkingar Stefáns á íslensku samfélagi fór blaðamaður ásamt ljósmyndara á fund Stefáns í Eflingu til að rekja úr honum garnirnar, í óeiginlegri merkingu auðvitað, um verkalýðsmál, efnahagsmál, alþjóðavæðingu, stöðu verkalýðshreyfingarinnar o.fl. Við hófum viðtalið á að spyrja Stefán út í sögu verkalýðshreyfingarinnar og víðtæku fylgi almennings við að vernda velferðarríkið sem ríkisstjórnin virðist ekkert vera allt of spennt að hlúa að.

„Ég myndi segja að verkalýðshreyfingin á þessum áratugum eftir seinni heimsstyrjöld hafi náð því að byggja upp umtalsverðan styrk og einnig á millistríðsárunum frá 1916 og fram að seinni heimsstyrjöld. Áratugirnir eftir seinna stríð alveg fram að 1990 einkenndust af miklum framförum, velsæld og auknum jöfnuði. Verkalýðshreyfingin var þá með heilmikinn stuðning þegar hún beitti sér t.d. í frægum verkföllum skömmu upp úr 1950 og 1955 og síðar. Mjög oft eftir 1960 var háð hörð kjarabarátta og var víðtækur stuðningur við aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar, við kröfurnar og einnig við verkföll þegar til þeirra kom,“ segir Stefán.

 


„Búið er að snúa þessu öllu á haus í umræðunni þar sem ríkjandi eru sjónarmið atvinnurekenda, hægri stjórnmála og að mörgu leyti margra fjölmiðla líka“

 

Verkalýðshreyfingin höfð fyrir rangri sök
„Ástæða þess að svo oft kom til verkfalla hér eftir 1960 var að tekin var upp öðruvísi hagstjórn þar sem gengisfellingum var beitt í mjög ríkum mæli. Þær höfðu þau áhrif að hleypa af stað verðbólgubylgjum sem skerti kaupmátt launa. Verkalýðshreyfingin kom svo iðulega einu, stundum tveimur árum síðar, til að endurheimta tapaðan kaupmátt og þurfti þá að beita öllu sínu afli til að ná kröfum sínum fram. Það heppnaðist oftast mjög vel þannig að það tókst að endurheimta kaupmátt og bæta. Nú er þessu öðruvísi farið. Búið er að snúa þessu öllu á haus í umræðunni þar sem ríkjandi eru sjónarmið atvinnurekenda, hægri stjórnmála og að mörgu leyti margra fjölmiðla líka. Þar er því haldið fram að verðbólgan sem tilheyrði þessu tímabili eftir 1960 og til ársins 1990 hafi fyrst og fremst verið verkalýðshreyfingunni að kenna vegna þess að hún hafi verið með of miklar launakröfur og búið til þennan vítahring. Í þessari söguskýringu er algjörlega litið fram hjá því að verkalýðshreyfingin var alltaf í varnarbaráttu – að verja kaupmátt og réttindi.

Aðalorsök verðbólgunnar var eins og ég sagði áðan gengisfellingar stjórnvalda. Við sjáum líka þegar að þjóðarsáttinni kom 1990 töluðu stjórnmálamenn á þeim nótum að tekist hefði að hemja kröfur verkalýðshreyfingarinnar og að hún semdi til lengri tíma um hóflegar hækkanir. Þá horfðu þó margir fram hjá því sem breyttist á þessum tíma – gengispólítíkin breyttist sem birtist í gengisaðhaldi; meira aðhaldi Seðlabankans og breyttri peningastefnu sem gerði það að verkum að verkalýðshreyfingin gat sætt sig við hóflegri launahækkanir sem skiluðu auknum kaupmætti vegna þess að ekki var verið að sprengja verðbólguna upp með gengisfellingum. Þegar tekin var upp ný stefna 2001 hjá Seðlabankanum, að festa í sessi verðbólgumarkmið, þá var búið að byggja inn aðhald á beitingu gengisfellinga því þær rústa verðbólgumarkmiðum hans, rétt eins og þær eru að gera núna og á síðasta ári.

Velferðarríkið fórnarlamb nýfrjálshyggjunnar
Nú á dögum er velferðarríkið orðið fórnarlamb hugmyndafræði nýfrjálshyggju sem gengur öll út á að draga úr hlutverki ríkisins, draga úr fjárveitingum ríkisins til velferðarmála og opinberrar þjónustu. Þessi stefna birtist okkur í auknum skerðingum og sveltistefnu ríkisstjórnarinnar þegar hún skerðir stuðninginn við heimilin í formi húsnæðisstuðnings, barnabóta og vaxtabóta. Þetta hefur allt saman rýrnað mikið á sama tíma og skattbyrði lægri tekjuhópa hefur aukist stórlega frá 1990. Við sjáum þetta líka í heilbrigðiskerfinu. Árið 2003 var Ísland næsthæst, á eftir Noregi, í útgjöldum Norðurlandanna til heilbrigðismála. Núna erum við komin niður fyrir meðaltal Norðurlandanna í útgjöldum til heilbrigðismála. Þetta minna framlag skapar minni getu heilbrigðiskerfisins. Við sjáum þetta í lengri biðlistum eftir heilbrigðisþjónustu, hærri þjónustugjöldum, auknu álagi og lakari þjónustu að sumu leyti. Þetta kerfi heldur alls ekki í við fólksfjölgunina og mikla aukningu ferðamanna hingað til lands sem bæði veikjast og slasast eins og Íslendingar, reyndar veikjast og slasast ferðamenn meira en Íslendingar. Auðvitað lendir þetta allt á heilbrigðiskerfinu.

Þá sjáum við líka hvernig nýfrjálshyggjustefnan fór með húsnæðismálin. Stjórnvöld lögðu niður félagslega húsnæðiskerfið 1999 sem verkalýðshreyfingin hafði byggt upp á löngum tíma frá 1929, eða næstum alla tuttugustu öldina,“ bætir Stefán við.

Hann segir að þegar verkamannabústaðakerfið hafi verið lagt niður hafi verkalýðshreyfingin mótmælt þeim áformum en lítið hafi farið fyrir þeim.

 


„Við sáum líka hversu dofin verkalýðshreyfingin var í hruninu. Hún tók ekki nærri nógu vel með í árarnar að styðja heimilin í skuldabyrðinni.“

„Verkalýðshreyfingin tjáði mótmæli sín en það fór kannski ekki mikið fyrir því. Á þingi var Jóhanna Sigurðardóttir sem talaði gegn þessum áformum og hélt uppi málþófi en tíðarandi nýfrjálshyggjunnar á þessum árum 1995–1999 var orðinn gríðarlega sterkur og ég held að vinstri flokkarnir á Alþingi hafi orðið á þessum árum að fórnarlömbum nýfrjálshyggjunnar líka. Þannig að forsendur fyrir viðnámi voru orðnar mjög veikar. Verkalýðshreyfingin í kjölfar þjóðarsáttarinnar gleypti þetta svolítið líka og fór að slá af í kröfum sínum, bæði í launakröfum en sofnaði líka talsvert á verðinum að vernda velferðarríkið sem hún átti stóran þátt í að byggja upp. Við sáum líka hversu dofin verkalýðshreyfingin var í hruninu. Hún tók ekki nærri nógu vel með í árarnar að styðja heimilin í skuldabyrðinni. Þá settist hún í það hlutverk að verja lífeyrissjóðina sem er út af fyrir sig mikilvægt en hún hefði líka þurft að gera þær kröfur til stjórnvalda að þau stæðu betur með heimilunum en þau gerðu. Hún hefði getað gert svo miklu betur.

Sofið áfram en almenningur vaknar
Hins vegar voru aðrir sem stóðu utan við stjórnmálin og verkalýðspólitíkina sem stóðu betur með almenningi eins og Hagsmunasamtök heimilanna á þessum tíma – Búsáhaldabyltingin. Ég las það svolítið þannig að verkalýðshreyfingin hefði látið það yfir sig ganga að stjórnvöld hefðu gengist inn á hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem birtist í að stjórnvöld, með lúmskum aðferðum, hækkuðu skatta á láglauna- og millitekjuhópana en lækkuðu um leið skattbyrði á hærri tekjuhópa, og svo með fjármagnstekjuskatti sem stórlækkaði skatttekjur þeirra efnamestu. Verkalýðshreyfingin var yfirleitt ekkert að skipta sér af þessari kjarabaráttu yfirstéttarinnar sem gekk fram af miklum krafti, með mikilli hörku og skilaði miklum árangri. Þetta gekk yfir frá 1995 fram að hruni 2008 þar sem ríkidæmi efsta eina prósentsins stórmagnast með meiri hraða en við höfum áður séð annars staðar á Vesturlöndum. Verkalýðshreyfingin sat hjá andvaralaus og skipti sér ekkert af þessu. Lífeyrissjóðirnir spiluðu með. Verkalýðshreyfingin bregst svo við með varnarbaráttu eftir hrun með því að samþykkja að kjarasamningar væru teknir úr sambandi og lagði áherslu á að stjórnvöld hækkuðu ekki skatta á breiðu bökin. Þetta fannst mér ekki góð útkoma fyrir verkalýðshreyfinguna og það er ekki fyrr en umskipti verða í verkalýðshreyfingunni á árunum eftir hrun sem hún fer að taka fastar á, eins og í kjarasamningum 2015–16, eftir að kjaradómur var búinn að úthluta stjórnmálamönnum og embættismönnum gríðarlegum kauphækkunum sem settu samfélagið á annan endann og læknar fengu 30 prósent kauphækkun.“

 

Höfðu enga trú á lífskjarasamningnum
Segja má að Efling hafi verið fótgönguliðinn í lífskjarasamningunum þar sem lagt var upp úr krónutöluhækkunum sem komu vel út bæði fyrir Eflingarfélaga og almenna vinnumarkaðinn en líka fyrir aðra hópa á opinbera vinnumarkaðnum. Efling var fyrst til að tala um flatar krónutöluhækkanir og gera þær kröfur að stjórnvöld lækkuðu tekjuskatta á lægri launahópana og millitekjuhópa en myndi svo fjara út eftir því sem launin væru hærri.

 


„Þegar er búið að gera kjarasamninga er launafólk ekki með neinar verðbólguvæntingar heldur fyrirtækin sem hækka verð. Því ættu verðbólguvæntingar í venjulegu árferði að heita verðbólgutækifæri fyrir fyrirtækjaeigendur því þeir nota sér verðbólgutíðarandann til að hækka verð á vöru og þjónustu.“


Í lífskjarasamningunum náðist góð samstaða þegar Efling og VR voru í forystu með einstaka félagi úr SGS. Þar náðist góður árangur sem skilaði hærri launum og kaupmætti fyrir bæði almenna og opinbera vinnumarkaðinn. Ég man að forystufólk innan hreyfingarinnar hafði enga trú á þessu þegar við vorum að tala um þetta, sögðu að þetta yrði of dýrt og við myndum ekkert komast áfram með þetta. En það tókst að fá alvöru lækkum á tekjuskatti sem sneri við skattastefnu stjórnvalda sem hafði verið sú að rýra persónuafsláttinn og þar með auka skattbyrði lægstu tekjuhópanna mest. Það var galli sem gerðist eftir kjarasamningana 2015 að ríkið var sífellt að taka stærri hluta af lægstu laununum og við gátum stoppað þessa þróun í lífskjarasamningum. Í kjölfar þessara samninga fannst mér verkalýðshreyfingin skynja það að hún gat haft meiri áhrif en menn höfðu gengið út frá áður, allt frá því þegar dofnaði yfir henni eftir þjóðarsáttina,“ útskýrir hann.

Á síðustu tveimur árum hefur komið til sundrungar innan verkalýðshreyfingarinnar. Stefán segir að hann bindi miklar vonir við að takist að brúa það á ný. Hann segir að kjarasamningarnir sem gerðir voru á síðasta ári feli í sér kaupmáttarskerðingu fyrir flesta á sama tíma og Seðlabankinn sé að þyngja húsnæðiskostnaðinn stórlega.

„Allir hljóta að vera búnir að draga þann lærdóm, þegar kemur að næsta kjarasamningi fyrir næstu jól, að fara þarf fram saman og ná fram samstilltum krafti í að laga þetta. Þessir nýju samningar fóru afvega sem hefur svo sem gerst áður í sögu verkalýðshreyfingarinnar,“ segir Stefán og brosir.

Svokallaðar verðbólguvæntingar
Stefán fjallar um í nýjustu bókinni sinni um hagvöxt og réttláta skiptingu á því sem þjóðfélagið skapar og segir að almennt sé talið að aukinn hagvöxtur skili sér í sanngjarnari launaþróun. En er það raunin?

„Það er er bara alls ekki sjálfgefið og gerist ekki sjálfkrafa að aukinn hagvöxtur skili sér til launafólks. Við sjáum það bara á árinu í fyrra þar sem var methagvöxtur, næstum eins mikill og á árinu 2007. Í kjölfar tímabundinna erfiðleika vegna heimsfaraldursins og innrásar Rússa í Úkraínu og hömlum í áfangakeðjum varð hér verðbólga sem kom að tveimur þriðju hlutum erlendis frá. Síðan þegar verðbólgan er komin af stað er alltaf hætta á þeim snjóboltaáhrifum sem hagfræðingarnir hafa gefið nafnið verðbólguvæntingar. Þegar er búið að gera kjarasamninga er launafólk ekki með neinar verðbólguvæntingar heldur fyrirtækin sem hækka verð. Því ættu verðbólguvæntingar í venjulegu árferði að heita verðbólgutækifæri fyrir fyrirtækjaeigendur því þeir nota sér verðbólgutíðarandann til að hækka verð á vöru og þjónustu, kenna útlöndum um eða einhverju öðru og taka þannig inn aukinn hagnað. Það gerist þrátt fyrir gríðarlegan hagvöxt sem þýðir aukinn hagnað fyrirtækjanna. Þá er metnaður verkalýðshreyfingarinnar t.d. í síðustu kjarasamningum Starfsgreinasambandsins að halda kaupmætti og vona að kaupmáttur aukist. Raunin er að hann er að veikjast mikið og mun halda áfram að rýrna í hverjum mánuði út þetta ár. Á meðan hagnast fyrirtækin og það er ágætt dæmi um að hagvöxturinn skilar sér ekki sjálfkrafa til launafólks, og ekki einu sinni með verkföllunum sem Efling stóð fyrir sem skilaði því miður engu vegna þess að það var búið að girða hana inni með samningum SGS,“ segir Stefán og bætir við að verðbólgan sé enn það mikil og að launin hækki ekki fyrr eftir næstu kjarasamninga í janúar nk.

Aðgangur sérhagsmunaafla að valdi og auð
Ríkisstjórnin virðist ekki vilja sækja auknar tekjur ríkisins til þeirra sem hafa stórkostlegan hagnað af nýtingu auðlinda þjóðarinnar. Ætla má að þeir aðilar sem nýta þær séu einhvern veginn ósnertanlegir. Fjármagnið sem þær skapa er helgað sérhagsmunaaðilum og launafólk látið eitt um að bera hitann og þungann af rekstri velferðarríkisins. Hvað finnst Stefáni um það?

 


„Þessir aðilar hafa meira vald og aðgang að stjórnmálunum í gegnum Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, sérstaklega þegar þessir tveir flokkar stýra landinu saman standa þeir vörð um hagsmuni þessara hópa.“


„Þetta er það sem ég er að reyna að útlista í bókinni minni, skýra af hverju íslenska velferðarríkið er eftirbátur velferðarkerfanna á Norðurlöndunum og reyna að svara hvers vegna gæði þess hafa rýrnað á undanförnum árum ásamt innviðunum. Þetta er allt saman skýranlegt út frá hagsmunum og valdi þeirra sem ekki vilja ganga að atvinnurekendum, fyrirtækjaeigendum, fjármagnseigendum og efnaðasta fólkinu í landinu til að standa með almenningi undir velferðarríkinu. Svo einfalt er það. Þessir aðilar hafa meira vald og aðgang að stjórnmálunum í gegnum Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, sérstaklega þegar þessir tveir flokkar stýra landinu saman standa þeir vörð um hagsmuni þessara hópa. Það birtist í að þeir halda veiðileyfa-gjaldinu allt of lágu, fjármagnstekjuskattinum allt of lágum, miklu lægri hér en í nágrannalöndunum. Einnig er tekjuskattsálagning á hátekjuhópa miklu lægri hér en á hinum Norðurlöndunum ásamt miklum skerðingum í almannatryggingakerfinu. Þetta eru leiðir þeirra til að hafa af þjóðinni eðlilegan skerf af þjóðarframleiðslunni. Þá er auðlindaskattheimtan óeðlilega lág hér á landi. Við höfum ekki gætt nándar nærri eins vel að tryggja hag þjóðarinnar af sjávarauðlindinni eins og Norðmenn hafa gætt að sinni auðlind, olíuauðlindinni, til að tryggja hag þjóðarinnar. Við gerðum það ekki og gerum það ekki heldur þegar við erum að selja ferðamönnum aðgang að náttúrufegurð landsins. Við höfum samt fengið góðan arð af orkuauðlindinni í gegnum Landsvirkjun sem er í eigu þjóðarinnar, en það eru þessi sömu öfl á hægri vægnum sem vilja selja Landsvirkjun, og Sjálfstæðisflokkurinn var byrjaður á að selja HS-orku til fjármálabraskara til Kanada sem ekkert vit hafði á orkumálum og hafði ekkert fram að færa hér til þeirra. Þessum braskara var meira að segja lánað fyrir kaupverðinu af Hitaveitu Suðurnesja. Þetta er sorglegt, eiginlega lélegt viðskiptavit, og ég mundi ekki andmæla því ef einhver myndi vilja kalla þetta spillingu því þarna var verið að sniðganga hag almennings sem var eigandinn. Sem betur fer eigum við enn þá Landsvirkjun og Orkuveituna.“

Nýr farvegur sérhagsmuna opnaður
Stefán segir að nú séu stjórnvöld að opna nýjan farveg fyrir vindorkuframleiðslu sem lagt er upp með að verði í eigu útlendinga. Þjóðin komi þar hvergi nærri. Hann segir að á sama tíma molni undan innviðum þjóðarinnar.

„Arðurinn af þessari fyrirhuguðu raforkuframleiðslu verður allur fluttur úr landi, rétt eins og með laxeldið. Það blasir við að þegar arður af þjóðarauðlindum skilar sér ekki til þjóðarinnar molnar undan innviðunum. Það er hætta á að öllu fari aftur, rétt eins og í húsnæðismálunum eftir að félagslega húsnæðiskerfið var lagt af. Síðan þá hefur þjóðin verið í viðvarandi húsnæðiskreppu. Á síðustu tveimur árum var brjálæðisleg og fordæmalaus hækkun á húsnæðismarkaði um 40 prósent. Sama á við um aðra innviði eins og við töluðum um áðan, bæta má menntakerfinu þar við. Þetta kerfi sem við lifum við er í djúpum vanda sem bitnar á þjóðinni. Mikil lausatök hafa einkennt viðbrögð ríkisstjórnarinnar að mínu mati og Seðlabankinn er nú að loka unga fólkið frá húsnæðismarkaðnum sem mun hlaða upp ófullnægðri eftirspurn. Þegar launin lagast mun þetta fólk fara út á húsnæðismarkaðinn og verðið mun springa upp aftur sem gerir ekkert nema að auka vandann og fresta honum. Stjórnvöld horfa fram hjá þörfum þjóðarinnar og einbeita sér frekar að fyrirtækjum og fjármagnseigendum, að þeir fái sinn arð í friði mjög rúman í stað þess að verðleggja auðlindirnar þó ekki væri nema með sanngjörnum skatti svo hægt sé að fá fé í ríkiskassann til að standa undir velferðinni, á svipaðan hátt rétt eins og gert er t.d. í Noregi.“

Grafið undan lýðræðinu
Okkur þykir flestum lýðræði sjálfsagt í velferðarríkinu. Stefán segir í bókinni sinni að verið sé að grafa undan lýðræðinu og upplýsing um lýðræði og vernd lýðræðisins sé ein af stóru áskorununum í íslensku samfélagi. Hvernig kemur þetta fram og telur Stefán að verkalýðshreyfingin geti beitt sér fyrir bættu lýðræði?

„Aukinn ójöfnuður í tekjum og eignum skilar sér í auknum pólitískum áhrifum. Með auknu auðræði kaupir efnafólk sér stjórnmálaáhrif og fær stjórnmálamenn til að móta stefnu sem gagnast þeim ríkustu mest. Þetta auðvitað grefur undan lýðræðinu og við sjáum út í heimi að einræði og einsflokkskerfi er í vexti. Hjá okkur hér á Íslandi er sundrung í stjórnmálaflokkum sem aðhyllast félagshyggju sem aftur býr til veikari vinstri pólitík. Á hinum Norðurlöndunum er algengast að vinstri stjórnmál fari með stjórn landsins og eru félagshyggjuflokkarnir þar langstærstir. Hér á landi er félagshyggja litin hornauga. Ef það er vinstri stjórn er litið á eins og um náttúruhamfarir sé að ræða, sérstaklega ef maður flettir Morgunblaðinu, þá er allt að fara til fjandans. Grundvöllur stéttastjórnmála sem jafnaðarmannaflokkar og vinstriflokkar fyrri tíðar stóðu fyrir hefur veikst og ímyndarstjórnmál tekið við. Segja má að stéttabarátta hafi farið úr tísku og þyki hallærisleg nú á tímum nýfrjálshyggjunnar. Verkalýðshreyfingin var áður með verkalýðsforingja inni á þingi og gat verið gagnlegt fyrir baráttumál hreyfingarinnar að hafa raddir þar. Nú eru nánast engin slík tengsl. Þá hafa slík tengsl verið feimnisatriði af þeirra hálfu og kannski verkalýðshreyfingin hafi ekki ræktað þessi tengsl eins og hún ætti hiklaust að gera.

 


„Ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum endurspeglast í fjármálaáætlunum undanfarið þar sem almennt launafólk er látið bera ábyrgðina með hærri sköttum og auknum álögum á meðan fjármagnseigendum er hlíft við að bera byrðarnar.“

 

Mér finnst heilmikil tilefni til að sameina þessa krafta, að verkalýðshreyfingin rækti sambandið við stjórnmál sem vilja setja málefni almennings, sérstaklega láglauna- og millitekjuhópanna, í forgang. Það er verulega mikilvægt fyrir lýðræðið og einnig svo að Ísland haldi ekki áfram að dragast aftur úr, heldur hafi eitthvað að segja um heilbrigði þjóðarlíkamans,“ segir hann og hallar sér aðeins aftur í stólnum.

Þetta er allt á haus
Ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum endurspeglast í fjármálaáætlunum undanfarið þar sem almennt launafólk er látið bera ábyrgðina með hærri sköttum og auknum álögum á meðan fjármagnseigendum er hlíft við að bera byrðarnar. Hvaða skoðun hefur hann á þessu og á stjórnun efnahagsmála?

„Jú jú. Ég er alveg sammála því að við búum við að mörgu leyti við ófullnægjandi hagstjórn af hálfu stjórnvalda í þessum aðstæðum. Bæði hafa stjórnvöld, eins og þú segir, fleytt í gegn hækkunum og gjöldum og boða í nýjustu fjármálaáætlun sinni að leggja verulega aukin gjöld á notkun einkabíla og fleira af þeim toga sem lendir beint á heimilunum. Engin alvöru úrræði eru þar lögð fram til þess að létta byrðar launafólks af verðbólgunni. Þegar kynntar voru hækkanir á barnabótum og húsnæðisbótum í fyrra náðu þær ekki einu sinni að verðbæta bæturnar frá því sem þær höfðu verið 2019 en voru samt kynntar sem kjarabót. Þetta eru ótrúlega léleg viðbrögð og algjört sinnuleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Í nýjustu fjármálaáætluninni er hvergi tekið á orsökum verðbólgunnar heldur er þar að finna skerðingar á kaupmætti launafólks á marga vegu. Þar kynnir ríkisstjórnin stefnu sína að draga úr eftirspurn sem er einfaldlega annað orðalag yfir að rýra kaupmáttinn,“ segir Stefán og hlær.

„Slíkt orðalag er hagfræðingum tamt sem almenningur skilur ekkert endilega almennilega – já, draga úr eftirspurn, einmitt það já, hugsar fólk. En það er fólkið sem er að berjast við að borga af húsnæðislánunum sínum og láta enda ná saman milli mánaða, sem ekki er að eyða of miklu í neyslu og af gjaldeyri þjóðarinnar, heldur er það efnaðri hluti þjóðarinnar. Og af hverju er ekki tekið á því?“ spyr Stefán og svarar: „Jú, það er vegna þess að ríkisstjórnin hlífir þeim efnameiri því ekki má hækka skatta eins og fjármagnstekjuskatt á þessa hópa. Hvað þá að hægja á þeim sem eru að kaupa fasteignir erlendis til dæmis, og menn geta alveg velt fyrir sér hvað það sé stór þáttur í útgjöldum gjaldeyris. Ég held að ef það er of mikil eftirspurn í landinu er það vegna of mikillar eyðslu og neyslu efnaðri hluta þjóðarinnar. Það er heldur léleg útkoma, ef byrðunum er fleytt niður á þá efnaminni sem eru ekki orsök né rót vandans. Þetta er allt á haus því miður og maður undrast að ekki sé verið að létta á greiðslubyrði almenns launafólks í þessari lífskjarakreppu.“

Skerðingar eiga að miðast við millitekjur
Fjármálaráðherra lagði nýlega fram fjármálaáætlun þar sem kemur fram, að ekki á að bæta í styrkjakerfin og áfram munu barnabætur skerðast við lágmarkslaun. Stefán segir að það sé ekki góð hagfræði.

„Algengasta formið á barnabótum, ef það er hugsað rétt, er að þær séu veglegastar fyrir þá sem þurfa mest á þeim að halda og skerðist ekki fyrr en fólk er komið í betri álnir. Viðmiðið er þá að byrja að skerða við meðaltekjur. Norðurlöndin, fyrir utan Danmörku, skerða ekki barnabætur því litið er á að það sé í rauninni tekjutilfærsla á milli kynslóða. Viðhorfið er að þegar fólk eignast börn fylgi því fjárhagserfiðleikar því fjölskyldur eru um leið að koma sér upp húsnæði og mennta sig jafnvel líka á sama tíma. Þess vegna léttir velferðarríkið undir með þeim og veitir stuðning meðan börn eru að vaxa úr grasi. Síðan falla þessar bætur niður við 18 ára aldur, þá hefur fjárhagur fjölskyldnanna batnað og þær greiða hærri skatt í staðinn og þannig greiða þau sjálf fyrir barnabæturnar. Danir eru eina Norðurlandaþjóðin fyrir utan Íslendinga sem skerðir barnabætur. Þeir byrjuðu að skerða þær á síðasta ári en skerðingarnar miðast við 1,3 milljónir króna í launatekjur á mánuði. Þannig að þær eru bara skertar fyrir hátekjufólk. Hins vegar á Íslandi er byrjað skerða barnabætur við lágmarkslaun. Þarna er himinn og haf á milli augljóslega, sem segir okkur að allt launafólk með meðallaun og fullvinnandi fólk fær aldrei óskertar barnabætur. Þetta þýðir bara minni stuðning við fólk í þessari lífsbaráttu heimilanna hér á landi,“ segir hann og bætir við: „Þetta er ekki góð hagfræði, alls ekki, því að megnið af þeim stuðningi sem barnabætur veita fer aftur út í samneysluna og rekstur heimilisins sem aftur skilar aukinni veltu. Það skilar sér svo í fleiri störfum og aukinni velsæld, þannig að ef ríkisstjórnin setur alltaf aukna velsæld fjöldans í forgang þá mun auðvitað allt í samfélaginu virka betur. Ef sett er aukin velsæld til þeirra ríku þá fara þeir hins vegar með peningana, auðinn úr landi, sem þá nýtist ekki þjóðinni til að þróa velferðarríkið áfram. Þetta er öfugþróun þegar hugsað er um hagsmuni heildarinnar. Framfarir eru ekki sjálfgefnar, það þarf að berjast fyrir þeim, og þar er verkalýðshreyfingin lykilaðili.“

 


„Ógnin liggur í markaðsvæddum ráðningarkjörum, auknum ójöfnuði, niðurbroti félagasamtaka og kerfa o.fl. Mesta ógnin er í þeim löndum þar sem almennt launafólk hefur litla vörn hjá verkalýðsfélögum og stjórnvöldum. Ríkisstjórnin hér og víðar hefur því miður verið allt of höll undir þessa markaðshyggju nýfrjálshyggjunnar.“

Ógn alþjóðavæðingarinnar
Þú segir að alþjóðavæðingunni sé stýrt á forsendum fjármagnseigenda þar sem hinn óhefti, reglulausi „frjálsi markaður“ á að sjá almenningi fyrir grunnþjónustunni. Telurðu að verkalýðshreyfingin geti beitt sér fyrir velferðarríkið, eða er þessi barátta sem hófst á þriðja áratug síðustu aldar töpuð með alþjóðavæðingunni?

„Alþjóðavæðingin, eins og hún hefur verið útfærð sem alþjóðavæðing óheftari markaðshátta og óheftara fjármálakerfis öðru fremur, er heilmikil ógn. Ógnin liggur í markaðsvæddum ráðningarkjörum, auknum ójöfnuði, niðurbroti félagasamtaka og kerfa o.fl. Mesta ógnin er í þeim löndum þar sem almennt launafólk hefur litla vörn hjá verkalýðsfélögum og stjórnvöldum. Ríkisstjórnin hér og víðar hefur því miður verið allt of höll undir þessa markaðshyggju nýfrjálshyggjunnar. Þó að menn séu í vaxandi mæli að átta sig á öllum þeim göllum sem þessu fylgir er ég alls ekki tilbúin að segja að baráttan fyrir velferðarríkinu sé töpuð barátta. Alls ekki. Það þarf samt öflugri vitund um mikilvægi þessarar baráttu, mikilvægi verkalýðshreyfinga og mikilvægi öflugra stéttastjórnmála á ný og beinan þrýsting á stjórnvöld um hag almennings. Ef það er ekki þrýstingur á stjórnvöld úr þessari átt frá almennu launafólki þá munu orkuskiptin, umhverfismálin, tækniþróun og eiginlega allt annað vera á forsendum fjármagnseigenda.

Ef framhald verður á alþjóðavæðingunni eins og verið hefur til þessa þá blasir við það sem Thomas Piketty segir um að þjóðfélögin verði líkari þjóðfélögum nítjándu aldarinnar með ofurójöfnuði því að auðurinn verði aðeins í höndum fárra – yfirstéttarinnar sem fleyti rjómann af öllu en almenningur sitji eftir í fátæktargildrum. Þetta skrifast á reikning stjórnmálanna að hafa leyft þetta. Til að bregðast við þurfum við að fá stéttastjórnmál í tísku á ný,“ segir Stefán Ólafsson að lokum.


Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)