Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

10. maí 2024

„Þetta er geggjuð vinna!“

Njörður Njarðarson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Sigynjar. Ljósmyndir/BIG

„Ég held almennt, að fólk sem starfar í félagsmiðstöðvum sé ánægt. Það er í starfi sem það langar að vera í. Við hittum svo mikið af ótrúlega skemmtilegu ungu fólki, og við fáum að ganga í gegnum alls konar lífsreynslu með þeim, skilurðu.“

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson


Félagsmiðstöðin Sigyn sigraði í sínum flokki í mannauðskönnun-inni Stofnun ársins 2023 – borg og bær, í flokknum litlir vinnustaðir. Auk sigurvegarans voru valdir fjórir fyrirmyndarstarfsstaðir, og þar á meðal voru tvær félagsmiðstöðvar til viðbótar: Ársel í þriðja sæti og Tónabær í fjórða sæti. Með þeim á lista eru svo tvö frístundaheimili; Frostheimar í öðru sæti og Draumaland Austurbæjarskóla í fimmta sæti. Enginn af þessum starfsstöðum var á lista í fyrra.

Njörður Njarðarson er forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Sigynjar sem staðsett er í Rimaskóla í Grafarvogi. Hann er upp alinn í Árbæ í Reykjavík, hefur ekki enn yfirgefið þann hluta borgarinnar þar sem hann sleit barnsskónum og býr nú þar með konu sinni og þremur börnum. Í starfi sínu sem forstöðumaður í félagsmiðstöð segir Njörður það hafa verið fyrir slysni sem hann hóf störf í félagsmiðstöð.

„Ég kláraði grunnskóla og fór svo í framhaldsskóla en entist ekki mjög lengi þar. Varð fljótt áhugalaus um námið í skólanum og fór fljótlega út á vinnumarkaðinn. Ég vann fjölbreytt verkamannastörf, allt frá því að starfa á bensínstöðvum yfir í vegagerð. Svo kom að því að ég fékk eiginlega nóg af því þræleríi og fór aftur í skóla. Með skólanum fékk ég vinnu á kvöldin í félagsmiðstöð. Þannig hófst þetta hjá mér í kringum 2002. Nú er ég að klára nám í félags- og tómstundafræði við Háskóla Íslands meðfram vinnunni.“

„Það var þann 3. janúar 2005 sem mér býðst að koma hingað inn og klára starfsárið hjá félagsmiðstöðinni. Ég tók þessu boði og hér er ég enn. Hef bara ekki farið.“

Hann segir áhuga sinn á þessu starfi hafi kviknað þegar hann var rétt liðlega þrítugur að aldri og bauðst að koma að starfa með börnum og unglingum í Sigyn. „Það var þann 3. janúar 2005 sem mér býðst að koma hingað inn og klára starfsárið hjá félagsmiðstöðinni. Ég tók þessu boði og hér er ég enn. Hef bara ekki farið,“ segir Njörður og bros færist yfir andlit hans.


„Við þurfum að hlusta“
Njörður er mikill rólegheitamaður, rennur ekki í honum blóðið eins og sagt er. Þegar við göngum inn á bókasafn Rimaskóla til að setjast niður og spjalla stendur hópur af krökkum við dyrnar og spyr hann hvað sé nú um að vera. Njörður stoppar, gefur sér tíma og útskýrir fyrir þeim að verið sé að fara að taka við hann viðtal í stéttarfélagsblað. Börnin klappa.

„Við sinnum börnum alveg frá tíu ára til sextán ára aldurs. Við bjóðum þeim upp á fjölbreytt starf, allt frá opnu húsi yfir í fjölbreytta viðburði með öðrum félagsmiðstöðvum. Við sem störfum hérna göngum í takt má segja. Við erum búin að starfa hérna svolítið lengi saman og erum góðir vinir. Við þekkjum vel hvert annað.“

Njörður segir að starfsfólkið sé svo heppið að fá að búa við þann lúxus að upplifa að börnin sæki í að koma í félags-miðstöðina. En hvað ætli sé gott að hafa með í veganesti í svona starfi?

„Þolinmæði,“ svarar Njörður og brosir góðlátlega. „Við þurfum að hlusta. Þetta er mest þannig, að hlusta á krakkana. Þau spyrja skrilljón spurninga dag hvern og þeim þarf að svara. Þau eru að þroskast og þess vegna þarf maður að vera þolinmóður og rólegur og gefa þeim tíma – ná sambandi við þau. Við viljum ekki vera stjórnsöm við krakkana, heldur þátttakendur með þeim. Við erum svo heppin að þau vilja koma til okkar, þau þurfa þess ekki, en þau vilja koma í félagsstarfið.“

 

Vinahópur frekar en hefðbundnir samstarfsfélagar
Sigyn er í efsta sæti í Stofnun ársins með 5–24 starfsmenn með heildareinkunnina 4,92 og svarhlutfallið var með besta móti, eða 80–100%.

Þið skorið 5 af 5 mögulegum fyrir stjórnun, starfsanda, jafnrétti, ánægju og stolt, og svo ímynd vinnustaðarins. Það er frábær árangur. Hvað liggur þar að baki?

„Ég held almennt, að fólk sem starfar í félagsmiðstöðvum sé ánægt. Það er í starfi sem það langar til að vera í. Við hittum svo mikið af ótrúlega skemmtilegu ungu fólki, og við fáum að ganga í gegnum alls konar lífsreynslu með þeim, skilurðu. Við erum líka eiginlega orðin vinahópur sem störfum hérna, það hefur þróast þannig að samstarfsfólkið er orðið vinahópur frekar en hefðbundnir samstarfsfélagar. Þetta ber allt að sama brunni. Vinaleg framkoma við hvert annað og virðing fyrir hvert öðru. Við erum sjö sem störfum saman hérna og á milli okkar ríkir mikil nánd. Þetta er geggjuð vinna!“ 

Það er nóg pláss úti í náttúrunni
Hann segir að starfsfólkið sé mjög útvistarsinnað. Þau vilja frekar fara með unga fólkið út en að vera inni. Þá segir Njörður að gefist hafi vel að gera það sem krakkarnir vilja gera og tengja það inn í starfið í félagsmiðstöðinni.

„Við vinnum mikið með útivist og fólkið sem er að vinna hjá mér er útivistarsinnað. Við erum hætt að pæla í að okkur vantar svona og hinsegin tómstundaherbergi. Við viljum frekar fara út í náttúruna því þar er nóg pláss. Við förum í göngutúra, á hjólabretti og höfum farið á brimbretti og við reynum líka að nýta okkur aðra fjölbreytta útivist – eiginlega allt sem í boði er. Við viljum að börnin fái fjölbreytta reynslu. Þó þau eigi ekki hjólabretti eða annað sem viðkemur útivistinni reddum við því. Allir geta tekið þátt. Við finnum alltaf lausn. Allir verða að fá tækifæri til að vera með,“ segir Njörður.

Njörður segir einkenna vinnustaðinn að þau hafi þá sameiginlegu hugsun að þau séu samheldin í öllu starfinu.

„Það er alltaf við. Við hugsun er ríkjandi hjá okkur, Ég geri ekki neitt einn. Þó að ég sé stjórnandi er ég bara hluti af tannhjólinu í starfinu. Það er lykilatriði í nálguninni. Það er alltaf við-hugsun hjá okkur og sameiginlega sköpum við góðan starfsanda. Við þekkjumst vel. Sem dæmi þá voru tveir starfsmenn hérna hjá mér áður í félagsmiðstöðinni þegar þeir voru tíu ára gamlir. Svo komu þeir seinna að vinna hjá mér,“ segir hann og hlær.

Að lokum segir Njörður það vera mjög gefandi að starfa í félagsmiðstöð.

„Þó maður sé búinn að vera vinna allan daginn og geispa úr sér lungun þá hverfur þreytan þegar maður opnar félagsmiðstöðina. Börnin streyma inn og maður dettur í ákveðinn gír. Þeim fylgir svo mikil og jákvæð orka og þau eru langoftast til í að gera eitthvað. Þá er alveg sama hversu erfiður dagurinn hefur verið, þá gleymist það bara,“ segir hann og smellir fingrum.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)