Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Helstu niðurstöður - allar stofnanir

Meðaleinkunn stofnana sem komust á lista er 4,04 hjá ríkisstofnunum og sjálfseignarstofnunum og stendur í stað milli ára en á síðasta ári hafði einkunnin aldrei verið hærri og hefur heildarmeðaltalið hækkað um 0,09 stig frá 2016. Á undanförnum árum hefur viðhorf til launakjara breyst mikið til batnaðar en sá þáttur lækkar lítillega nú og er sá þáttur í könnuninni sem lækkar hvað mest milli ára. Þá hækkar þátturinn Ímynd stofnunar milli ára en aðrir þættir breytast lítið eða standa í stað.

Meðaleinkunn stofnana sveitarfélaga og fyrirtækja borgarinnar er lítið eitt hærri en hjá ríki og sjálfseignarstofnunum, eða 4,11, og stendur nokkurn veginn í stað frá því í fyrra. Heildareinkunn sveitarfélaga og fyrirtækja borgarinnar hefur hækkað mikið á undanförnum árum, eða um 0,18 stig frá 2016. Líkt og hjá ríkisstofnunum hækkar ímynd milli ára en viðhorf til launakjara batnar hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum borgarinnar milli ára sem er ólíkt því sem við sjáum í niðurstöðum ríkisstofnana.

Jafnréttisþátturinn hæstur allra þátta í annað sinn
Hjá ríkisstofnunum og sjálfseignarstofnunum mælist jafnréttisþátturinn (4,29) og er hæstur af þáttunum níu í annað sinn. Einkunn á þættinum „jafnrétti“ hefur hækkað um 0,21 stig frá árinu 2016. Næstir koma þættirnir um sveigjanleika og sjálfstæði í starfi – með sömu einkunn (4,25). Hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum borgarinnar er jafnréttisþátturinn einnig hæstur (4,43) í annað sinn og hefur hækkað um 0,03 stig frá því í síðustu mælingu og 0,30 stig frá árinu 2016. Næst hæsta einkunn mælist á starfsanda (4,34) og svo ánægju og stolti (4,33).

Á mynd 3 eru bornar saman einkunnir allra stofnana á lista, annars vegar Stofnun ársins – ríkisstofnanir og sjálfseignarstofnanir og hins vegar Stofnun ársins – borg og bær (sveitarfélög og fyrirtæki borgarinnar).

 

 

 

Mynd 3: Heildareinkunn og einkunnir allra þátta – allar stofnanir á lista

Jafnréttisþátturinn hefur hækkað mest allra þátta frá 2016 í könnuninni um Stofnun ársins og þátturinn um stjórnun næst mest, bæði hjá ríkisstofnunum og hjá sveitarfélögum. Hjá ríkinu og sjálfseignarstofnunum hafa allir þættir hækkað frá 2016 nema tveir; sveigjanleiki vinnu og sjálfstæði í starfi sem lækkuðu lítillega. Hjá sveitarfélögum og borgarstofnunum hafa allir þættir hækkað frá árinu 2016 (sjá myndir 4 og 5).

Mynd 4: Breytingar á einkunnum allra þátta 2016-2020 - ríki og sjálfseignarstofnanir – stofnanir á lista.

Mynd 5: Breyting 2016-2020 - sveitarfélög og fyrirtæki borgarinnar – stofnanir á lista.

Jafnréttisþátturinn er sá þáttur sem hækkað hefur mest frá 2016
Á undanförnum mánuðum og árum hefur jafnrétti mikið verið í umræðunni og stjórnendur hvattir til aðgerða sem stuðla að jafnrétti með margvíslegum hætti, bæði með lögum um jafnlaunavottun sem lögfest var í júní 2017, en þó kannski enn frekar með aðgerðum á vinnustöðunum.
Vitundarvakning hefur orðið um mikilvægi þess að tryggja fólki öryggi og reisn í samskiptum eftir að fólk greindi frá ýmiskonar niðurlægingu, ofbeldi og áreitni sem það hefur þurft að þola en hingað til ekki þorað og/eða viljað ræða við aðra. Helst ber að nefna #metoo byltinguna sem fór á flug haustið 2017 og dró fram í dagsljósið kynferðisofbeldi og áreitni sem fólk verður fyrir í lífi og starfi. Kynferðisofbeldi og áreitni er í mun meira mæli hluti af reynsluheimi kvenna en karla og gerendurnir oftar karlar en konur. Þannig varpaði þessi hreyfing ljósi á ólíkan reynsluheim karla og kvenna og hvatti stjórnendur og stjórnvöld til dáða að tryggja fólki öryggi í lífi og starfi. Þessi bylting hefur verið mikil hvatning til stjórnenda til að skerpa á stefnum, ferlum, samskiptum, talsmáta og menningu sem án efa hefur skilað sér inn í samskipti á vinnustöðunum og núna í mati fólks á starfsumhverfi sínu.

Starfsumhverfi á almennum markaði sterkara, nema þegar kemur að jafnrétti
Samanburður á einkunnum stofnana við fyrirtæki sem komust á lista sýnir að almenni markaðurinn kemur betur út en hinn
opinberi á sex þáttum. Þá eru bornar saman einkunnir stofnana ríkis og sveitarfélaga sem komust á lista og fyrirtækja sem komust
á lista í könnun VR um fyrirtæki ársins. Mestu munar á opinbera og almenna markaðnum þegar kemur að viðhorfum til launa, en
starfsfólk á almenna markaðnum er mun ánægðara með laun sín en fólk sem starfar hjá ríki, sveitarfélagi, fyrirtækjum borgarinnar
eða sjálfseignarstofnunum. Þá telur starfsfólk á almenna markaðnum ímynd síns fyrirtækisins vera mun betri en starfsfólk á
opinberum vinnustöðum. Einnig telur fólk á almenna markaðnum vinnuskilyrði vera betri og sveigjanleika meiri en starfsfólk á
opinbera markaðnum, svo dæmi séu tekin. Á hinn bóginn metur starfsfólk jafnrétti lakara á almenna markaðnum ef svör eru
borin saman við svör starfsfólks sem vinnur hjá sveitarfélögum eða fyrirtækjum borgarinnar. Þá er stjórnun einnig metin hærri hjá
sveitarfélögum og fyrirtækjum borgarinnar en á almenna markaðnum.

 

Mynd 6: Samanburður á einkunnum hjá VR (fyrirtæki á almennum markaði) og Sameykis ríki og sjálfseignarstofnanir og Sameykis – borg og bær. Einkunnir fyrirtækja (VR) má finna á https://www. vr.is/kannanir/fyrirtaeki-arsins-2020/ framkvaemdin/

Starfsfólk minni stofnana ánægðara hjá ríki og sjálfseignarstofnunum
Líkt og áður er stofnunum skipt eftir stærð, þ.e. fjölda starfsmanna. Hjá ríki og sjálfseignarstofnunum eru flestar stofnanir flokkaðar sem „stórar stofnanir“ (50 starfsmenn eða fleiri), eða 85. Næst flestar stofnanir eru í flokki meðalstórra stofnanna (20-49 starfsmenn), eða 41 og fæstar stofnanir eru í flokki minnstu stofnana (færri en 20 starfsmenn), eða 17 stofnanir. Stærð vinnustaða er almennt talin mikilvægur áhrifaþáttur á líðan og viðhorf starfsfólks af nokkrum ástæðum. Samhæfing ólíkra þátta í starfseminni verður t.d. flóknari með aukinni stærð, en einnig nýta stærri vinnustaðir alla jafna formlegri stjórnun og skipulag en minni vinnustaðir. Hvoru tveggja getur haft áhrif á aðstæður og samskipti á vinnustaðnum. Ákvarðanataka getur þannig verið hægari í stærri stofnunum og hendur stjórnenda bundnari í mörgum málum en í minni stofnunum. Það á ekki síst við um launasveigjanleika. Á móti kemur að stærri stofnanir hafa meiri bjargir, t.d. til að byggja upp mannauðsdeildir sem veitt geta stjórnendum sérhæfðari aðstoð en annars væri. Auk þess sem tækifæri til starfsþróunar og sérhæfingar eru oftast meiri í stærri stofnunum en minni. Í minni stofnunum geta samskipti verið óformlegri og upplýsingamiðlun einfaldari, þó að það sé auðvitað ekki algilt.

Meðal ríkisstofnana og sjálfeignarstofnana fá stærstu stofnanirnar mun lakari útkomu en minnstu stofnanirnar á öllum þáttum. Minnstu munar á ímyndar- og jafnréttisþættinum en mestu á viðhorfum til launakjara og vinnuskilyrða.

Lítill munur hjá fyrirtækjum borgarinnar og stofnunum sveitarfélaga
Hjá stofnunum sveitarfélaga og fyrirtækjum borgarinnar er lítill munur á stórum stofnunum (með 50 eða fleiri starfsmenn) og minni stofnunum (með færri en 50 starfsmenn) en almennt koma stærri stofnanir betur út en hinar minni, öfugt við það sem er hjá ríkisstofnunum og sjálfseignarstofnunum. Minni stofnanir koma einungis betur út en þær stærri á þættinum vinnuskilyrði.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)