Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Helstu niðurstöður - allar stofnanir á lista

Einkunnir þáttanna níu meðal stofnana á lista

Meðaleinkunn stofnana (ríki- og sjálfseignarstofnanir) sem komust á lista er 4,04 og stendur einkunnin í stað milli ára. Níu þættir liggja að baki heildareinkunninni. Einn þáttur lækkar lítillega frá því í síðustu mælingu og er það „sveigjanleiki vinnu“ (-0,06). Tveir þættir hækka lítillega, „ímynd“ (0,04) og „launakjör“ (0,04).

Meðaleinkunn í „Stofnun ársins – borg og bær“ mælist hærri en hjá ríkis- og sjálfseignarstofnunum, eða 4,14 og hefur heildareinkunnin
aldrei mælst hærri (sjá mynd 3). Meðaleinkunn stofnana sveitarfélaga og fyrirtækja borgarinnar hefur verið lítið eitt hærri en hjá ríki og sjálfseignarstofnunum síðustu þrjú ár.

Hjá ríkisstofnunum og sjálfseignarstofnunum mælist jafnréttisþátturinn hæstur þáttanna níu í þriðja sinn (4,29). Einkunn á þættinum stendur í stað frá fyrra ári en þátturinn hefur hækkað mikið frá því að hann var fyrst mældur (2016). Næstir koma „starfsandi“ og „sjálfstæði í starfi“ – báðir með sömu einkunn (4,24).

Hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum borgarinnar er jafnréttisþátturinn einnig hæstur (4,41) í þriðja sinn. Þátturinn hefur einnig hækkað mikið frá því að hann var fyrst mældur í könnuninni. Næst hæsta einkunn mælist á „starfsanda“ (4,37) og svo „ánægju og stolti“ (4,36). Mikil breyting verður á mati á launakjörum milli ára. Sá þáttur hækkar um hvorki meira né minna en 0,38 frá því í síðustu könnun, en þess ber að geta að stofnanir í ár eru fáar og færri en í síðustu mælingu og því færri svarendur sem liggja að baki tölunum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á myndinni hér að ofan er heildareinkunn og einkunn allra þátta allra stofnanna á lista bornar saman. Annars vegar Stofnun ársins (ríkisstofnanir og sjálfseignarstofnanir) og hins vegar Stofnun ársins – borg og bær (sveitarfélög og fyrirtæki borgarinnar).

Breytingar þátta frá 2016 meðal stofnana á lista
Jafnréttisþátturinn hefur hækkað mest allra þátta frá 2016 meðal ríkisstofnana og sjálfseignarstofnana, eða um 0,21 á kvarðanum 1-5. Næst mest hækkar þátturinn „launakjör“, eða um 0,19 á kvarðanum 1-5.

Frá 2016 hafa allir þættir hækkað lítillega nema tveir; „sveigjanleiki vinnu“ og „sjálfstæði í starfi“. Sú lækkun sem verður á sveigjanleika er fyrst og fremst lækkun frá síðustu könnun, en ekki lengri tíma
breyting.

Einkunnir þátttanna níu hjá þeim sem starfa hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum borgarinnar hafa allar hækkað frá 2016, launakjörin hafa hækkað langmest, eða um 0,53 á kvarðanum 1-5. Sú hækkun er að stórum hluta tilkomin vegna hækkunar á þættinum í ár miðað við siðastu könnun. Stjórnunarþátturinn hefur einnig hækkað mikið frá 2016 eða um 0,34.

Hækkun jafnréttisþáttarins kemur kannski ekki á óvart miðað við þann fókus sem jafnréttismál hafa fengið á liðnum árum. Vitundavakning hefur orðið um mikilvægi þess að tryggja fólki öryggi og reisn í samskiptum eftir að fólk greindi frá ýmiskonar niðurlægingu, ofbeldi og áreitni sem það hefur þurft að þola en hingað til ekki þorað og/eða viljað ræða við aðra. Enn er þó verk að vinna og enn eru hópar fólks sem dæmt er úr leik vegna ýmissa ytri þátta sem ekki tengjast frammistöðu þeirra í vinnu með neinum hætti. Jafnrétti er stöðugur lærdómur fyrir okkur öll og þróunin hefur verið í þá átt að útvíkka hugtakið smám saman yfir á fleiri svið mannlegra eiginleika. Öll höfum við styrkleika en þeir nýtast ekki nema vinnustaðir skapi umhverfi sem er móttækilegt fyrir einstaklingsbundnum styrkleikum og séu tilbúnir að aðlaga verkefni og vinnubrögð að þeim.

Samanburður við almenna markaðinn – fyrirtæki og stofnanir á lista
Hægt er að bera saman einkunnir allra þátta við könnun VR Fyrirtæki ársins. Stofnun ársins byggir á sömu spurningum og sömu níu þáttum og Fyrirtæki ársins.

Samanburður á einkunnum stofnana sem komast á lista við fyrirtæki sem komust á lista sýnir að fyrirtæki á almenna markaðinum (í könnun VR, Fyrirtæki ársins) koma almennt betur út en vinnustaðir hins opinbera.

Mestu munar á opinbera og almenna markaðnum þegar kemur að viðhorfum til launa, ímyndar og vinnuskilyrða. Starfsfólk á almenna markaðnum er mun ánægðara með laun sín en fólk á opinberum markaði. Þá telur starfsfólk á almenna markaðnum ímynd síns fyrirtækisins vera mun betri en starfsfólk á opinberum vinnustöðum. Að auki telur fólk á almenna markaðnum vinnuskilyrði vera betri en starfsfólk á opinbera markaðnum, svo dæmi séu tekin.

 

 

Mynd 5 sýnir hve mikið lægri einkunnir eru í Stofnun ársins (ríki og sjálfseignarstofnanir) og Stofnun ársins – borg og bær samanborið við almenna markaðinn (Fyrirtæki ársins). Á myndinni má sjá að einkunn opinberra vinnustaða er hvergi hærri en fyrirtækjanna og oft umtalsvert lægri. Eins og sjá má á þáttunum „ímynd“ og „launakjör“ svo dæmi sé tekið.

Samanburður eftir stærð stofnana
Líkt og áður er stofnunum skipt eftir stærð, þ.e. fjölda starfsmanna. Eins og hefur komið fram eru stærðarflokkar breyttir frá því sem áður var, en mynstrið hið sama og áður. Stærstu stofnanirnar koma að meðaltali verr út á öllum þáttunum níu en minni stofnanir. Mesti munur milli stærstu stofnananna og þeirra minnstu er á þáttunum „launakjör“ (-0,59), „vinnuskilyrði“ (-0,39) og „sveigjanleiki“ (-0,34)

Stærð vinnustaða er almennt talin áhrifaþáttur á líðan og viðhorf starfsfólks af nokkrum ástæðum. Samhæfing ólíkra þátta í starfseminni verður flóknari með aukinni stærð en einnig nýta stærri vinnustaðir alla jafna formlegra stjórnunar og skipulag fremur en minni vinnustaðir. Hvoru tveggja getur haft áhrif á aðstæður og samskipti á vinnustaðnum. Ákvarðanataka getur þannig verið hægari í stærri stofnunum og hendur stjórnenda bundnari í mörgum málum en í minni stofnunum. Á móti kemur að stærri stofnanir hafa meiri bjargir, t.d. til að byggja upp mannauðsdeildir sem veitt geta stjórnendum sérhæfðari aðstoð en annars væri. Að auki eru tækifæri til starfsþróunar og sérhæfingar oftast meiri í stærri stofnunum en minni. Í minni stofnunum geta samskipti verið óformlegri og upplýsingamiðlun einfaldari, þó það sé auðvitað ekki algilt.

 

 

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)