Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Framkvæmd könnunar

Stofnun ársins er nú stærri en nokkru sinni fyrr og með talsvert breyttu sniði frá fyrri árum. Stærsta breytingin er þátttaka Reykjavíkurborgar sem nú tekur þátt fyrir allt starfsfólk. Niðurstöður verða í þremur flokkum þetta árið. Flokkarnir eru: ríkisstofnanir, starfsstaðir borgarinnar, sjálfseignastofnanir og fyrirtæki í almannaþjónustu. Líkt og á síðasta ári var Stofnun ársins framkvæmd í nóvember og desember. Þátttökulistar (netfangalistar) yfir starfsfólk ríkisstofnanna komu frá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Við gerð þátttökulista var miðað við að starfsfólk væri starfandi í maí og september 2022. Listi yfir starfsfólk borgarinnar kom frá Mannauðs- og starfsumhverfissviði borgarinnar.

Sjálfseignarstofnanir og fyrirtæki sendu svo sjálf þátttökulista til Gallup. Þær stofnanir greiða sjálfar fyrir þátttöku. Sjö sjálfseignarstofnanir og fyrirtæki í almannaþjónustu þáðu boð um að taka þátt í Stofnun ársins fyrir alla starfsmenn en þær voru Heilsustofnun NLFÍ, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Matís ohf., Orkubú Vestfjarða (OV), Reykjalundur, SÁÁ og Félagsbústaðir

Um könnunina

Val á stofnun ársins er samstarfsverkefni margra aðila; Sameykis, Kjara- og mannauðssýslunnar, Mannauðs- og starfsumhverfissviðs borgarinnar og svo stofnananna sjálfra. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir. Í ár er í fyrsta skipti hægt að bera saman starfsumhverfi ríkis og borgar með góðum hætti. Einnig er hægt að bera saman niðurstöður þessarar könnunnar við niðurstöður fyrirtækja á almennum markaði þar sem VR framkvæmir sambærilega könnun, Fyrirtæki ársins, meðal fyrirtækja. 

Tilgangur könnunarinnar
Tilgangur með vali á Stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi. Að lokum veitir könnunin aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.

Spurningalisti er lagður fyrir starfsfólk á netinu. Mælingin nær yfir níu ólíka þætti, en þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana. Spurningalistinn er sá sami og notaður hefur verið undanfarin ár og niðurstöður því að fullu sambærilegar við fyrri ár.

Þáttagreining (factor analysis) var notuð til að greina þá undirliggjandi þætti sem eru mældir. Í megindráttum komu fram níu þættir, en þeir eru: stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnrétti. Vægi
þáttanna í heildareinkunn ákvarðast af þáttagreiningunni en stofnunum er síðan raðað eftir
heildareinkuninni. 

Alls fengust gild svör frá tæplega 16.300 starfsmönnum. Það er um þrjú þúsund fleiri en á síðasta ári. Þar munar mestu um þátttöku Reykjavíkurborgar í könnuninni. Af heildarúrtakinu bárust svör frá tæplega 11.000 starfsmönnum ríkisstofnana, tæplega 5000 starfsmönnum Reykjavíkurborgar og rúmlega 600 starfsmönnum sjálfseignarstofnana og fyrirtækja. Svarhlutfall, gildir listar af endanlegu úrtaki, var tæplega 52%.

Stofnanir á lista
Í ár er stofnunum og starfsstöðum skipt í þrjá flokka en þeir eru: starfsstaðir borgarinnar, alls 175 starfsstaðir, ríkisstofnanir, alls 143 stofnanir og svo fyrirtæki og sjálfseignarstofnanir, alls 8 talsins.

Að baki valinu á Stofnun ársins liggja niðurstöður stofnanna sem uppfylla skilyrði um svörun (35% svarhlutfall og að lágmarki 5 svör) og byggir sá hluti á tæplega 10.000 svörum hjá ríkisstofnunum og sjálfseignarstofnunum og ríflega 4.300 svörum hjá Reykjavíkurborg.

Þátttökuskilyrði
Til að stofnun, starfsstaður eða fyrirtæki nái inn á listann og komi til greina sem Stofnun ársins þarf svarhlutfall að vera að lágmarki 35% – þá er miðað við innsenda lista sem hlutfall af útsendum spurningalistum. Fimm svör þurfa að berast frá stofnun/starfsstað að lágmarki, en auknar kröfur eru gerðar um fjölda svara eftir því sem starfsfólki stofnunarinnar/starfsstaðar fjölgar.

Könnunin nær til allra starfsstaða Reykvíkurborgar, allra ríkisstofnana sem og til alls félagsfólks Sameykis sem er í 30% starfi eða meira og hafa verið félagsfólk í a.m.k. þrjá mánuði. Félagsfólk Sameykis starfar víða, t.d. hjá ríki og sveitarfélögum (aðallega Reykjavík, Akranesi og Seltjarnarnesi), fyrirtækjum borgarinnar, hjá sjálfseignarstofnunum eða stofnunum í eigu annara en ríkisins. Þessar stofnanir/starfsstaðir eru einnig með í vali á stofnun ársins svo fremi sem þær uppfylli almenn þátttökuskilyrði. Þá geta þessar stofnanir/starfsstaðir óskað eftir þátttöku í Stofnun ársins og boðið öllu starfsfólki að svara könnuninni.

 

Nánari umfjöllun um helstu niðurstöður allra stofnana og heildarniðurstöður (rúmlega 16.000 svör) eftir þáttum er að finna hér í sérritinu Stofnun ársins.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)