Merki Sameykis á smærri skjá

Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-840
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Úthlutunarreglur starfsþróunarstyrkja

Gilda frá 1. janúar 2018

 1. Um starfsþróunarstyrki og rétt félagsmanna

  1.1. Styrkir fyrir starfsþróun. 
  Um er að ræða sérstaka starfsþróunarstyrki sem ætlaðir eru til að efla enn frekar starfsþróunarmöguleika félagsmanna og tengjast starfsþróunaráætlun stofnana eða starfsþróun umsækjenda.

  1.2. Réttur til að sækja um styrk
  1.2.1. Félagsmaður þarf að hafa verið félagi í SFR í eitt ár til að eiga rétt á styrk vegna kostnaðar sem stofnað er til eftir að árs aðild er náð.

  1.2.2. Félagsmaður skal greiða a.m.k. 23.000 kr. í félagsgjöld sl. 12 mánuði til að fá fullan styrk. Hálfur styrkur er veittur þeim sem greiða á bilinu 11.500-23.000 kr. í félagsgjöld sl. 12 mánuði. Félagsmaður þarf að hafa verið a.m.k. 12 mánuði samfellt í félaginu til að fá styrk samkvæmt lið 2.2.

  1.2.3. Félagsmaður þarf að vera í starfi bæði þegar hann sækir um styrk og notar hann.

  1.2.4. Félagsmenn í atvinnuleit geta nýtt sér áunninn rétt ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld meðan á atvinnuleit stendur.

 2. Styrkhæft nám

  2.1. Hægt er að sækja um styrk vegna fræðslu sem tengist starfsþróunaráætlun umsækjenda eða er liður í starfsþróun hans samkvæmt staðfestingu yfirmanns.

  Starfsþróunaráætlun snýr að starfsþróun í núverandi starfi. Áætlunin byggir á 
  sameiginlegri niðurstöðu starfsmanns og yfirmanns með þarfir starfsmanns og 
  stofnunarinnar í huga. Markmiðið er að auka árangur starfsmanns og stofnunar 
  og er hluti af starfsþróunaráætlun sem samþykkt er af yfirmanni.

  2.2. Sé staðfesting yfirmanns ekki fyrir hendi er réttur til umsóknar almennt háður því að verkefni teljist vera liður í starfsþróun umsækjanda til að þróast faglega og tileinka sér nýja þekkingu, færni og hæfni. Rökstyðja þarf umsókn með tilliti til þess.

  2.3. Viðmið fyrir styrkveitingu er að nám standist almennar gæðakröfur eða sé gæðavottað/viðurkennt.

  2.4. Rökstyðja þarf staðarval náms ef það felur í sér ferðakostnað.

  2.5. Hvað er styrkt? 
  Styrkir eru veittir vegna eftirtalinna kostnaðarþátta:

  - Skólagjöld
  - Námskeiðsgjöld
  - Ráðstefnugjöld
  - Ferðakostnaður sem hlýst af A til C. 
    Í ferðakostnaði er innifalið m.a. flug, lestarferðir milli borga og kostnaður vegna gistingar. 
    Félagsmaður skal leitast við að finna sem hægstæðust kjör á flugi og gistingu.

  2.6. Hvað er ekki styrkt? 
  Ekki er greiddur styrkur vegna uppihalds (fæðiskostnaður), samgangna innanbæjar, bensíns eða bílaleigubíla.

 3. Styrkupphæð 
  Félagsmaður getur að hámarki fengið 370.000 kr. samtals í styrk á 24 mánaða tímabili úr sjóðnum. Félagsmaður getur fengið kostnað upp að 250.000 kr. greiddan að fullu. Greitt er 80% samþykkts kostnaðar sem er á bilinu 250.000-400.000 kr. 
  Aldrei eru greiddir hærri styrkir en sem nemur framlögðum reikningum.

 4. Hvernig eru starfsþróunarstyrkir greiddir út?

  4.1. Umsóknir og fylgiskjöl
  Til að umsókn fari í vinnslu þarf bæði að fylla út rafræna umsókn og skila inn fylgigögnum/greiðslukvittunum. Rafræn umsókn er fyllt út á Mínum síðum SFR á www.sfr.is. 

  Reikninga og/eða greiðslukvittanir og önnur fylgigöng skal senda rafrænt sem viðhengi inni á Mínum síðum eða á starfsmenntun@sfr.is. Einnig er hægt að skila þeim á skrifstofu SFR, Grettisgötu 89, 105 Reykjavík.

  Skila skal inn staðfestingu yfirmanns á tengingu við starfsþróunaráætlun sé hún til staðar. Greiðslur úr sjóðnum fara að jafnaði fram gegn framvísun sundurliðaðs reiknings með nafni og kennitölu umsækjanda og skilgreindum námstíma. Reikningur þarf að vera númeraður og greinilega merktur viðkomandi námsstofnun/fyrirtæki og vera sannanlega greiddur. Almennt er ekki gerð krafa um frumrit, en stjórn sjóðsins áskilur sér þó rétt til þess ef þörf er talin á. Fái umsækjandi styrk frá öðrum skal hann tilgreina það í umsókninni. 
  Ekki er unnt að skila inn reikningi sem er eldri en 12 mánaða.

  4.2. Staðfesting yfirmanns vegna ráðstefnu erlendis
  Þegar um ráðstefnur erlendis er að ræða þarf að koma bréf frá vinnustað umsækjanda, þar sem upplýst er um tilgang og markmið ferðarinnar og hvernig hún tengist starfsþróun viðkomandi. Taka skal fram hvort ferðin sé styrkt af öðrum, t.d. vinnustað, og hversu mikið. Greinargerð þessi skal vera árituð af yfirmanni. Auk þess þarf að sýna afrit af farseðli eða hliðstæðar kvittanir vegna útlagðs ferðakostnaðar. Umsækjanda ber að tilkynna forföll til sjóðsins.

  4.3. Útborgun styrks 
  Starfsþróunarstyrkir eru greiddir út a.m.k. einu sinni í mánuði í síðasta lagi fjórða föstudag hvers mánaðar. Forsenda greiðslu er að fulltrúi eða stjórn Starfsmenntunarsjóðs SFR hafi samþykkt umsókn og að nauðsynleg fylgigögn hafi borist skrifstofu SFR í tíma. 
  Félagsmaður fær tilkynningu í tölvupósti þegar styrkur er greiddur út.

  4.4. Frágangur umsókna og afgreiðsla
  Félagsmaður skal vanda frágang umsókna og tilgreina hvernig hann ætlar að verja styrknum, hvert markmiðið sé með náminu og hvernig námið nýtist í starfi. Vel útfylltar umsóknir flýta fyrir afgreiðslu styrkja.
  Sjóðurinn greiðir ekki vegna kostnaðar nema hann hafi sannanlega lagst á félagsmanninn. Ekki er greitt út á greiðslukvittanir sem eru í nafni annarra t.d. vinnuveitanda. Ef greiðslukvittanir eru í nafni annars en félagsmanns er gerð krafa um staðfestingu á endurgreiðslu.

  4.5. Upplýsingar til skattayfirvalda 
  Veittir styrkir vegna fræðslu eru forskráðir á skattaskýrslu. Heimilt er að skrá kostnað á móti þegar framtali er skilað samkvæmt reglum ríkisskattstjóra.

 5. Tíðni styrkveitinga, fyrning og fleira

  5.1. Tíðni styrkveitinga
  Félagsmaður með full réttindi (sjá lið 1.2) getur fengið allt að 370.000 kr. í styrk á 24 mánaða tímabili. Þannig getur félagsmaður sótt um fleiri en einn styrk á tímabilinu, þar til hámarksupphæð er náð.

  5.2. Sótt um aftur í tímann
  Umsókn um styrk verður að berast skrifstofu innan árs frá lokum náms/verkefnis. Ekki er þó unnt að skila inn reikningi sem er eldri en 12 mánaða.

  5.3. Fyrning styrkveitingar
  Ef umsækjandi hefur ekki skilað nauðsynlegum gögnum (reikningum og staðfestingu) innan 9 mánaða frá því að umsókn var samþykkt fyrnist réttur til greiðslu.

  5.4. Tvígreiðsla eða ofgreiðsla
  Ef mistök verða í afgreiðslu styrkumsóknar eða greiðslu styrks munu starfsmenn SFR leitast við að leiðrétta mistök eins fljótt og hægt er. Félagsmaður skal tilkynna skrifstofu SFR ef um ofgreiðslu er að ræða og endurgreiða ofgreidda upphæð þegar í stað.

  5.5. Réttur til að hætta við umsókn
  Ef umsækjandi nýtir ekki vilyrði fyrir styrk eða dregur umsókn sína til baka áður en styrkur er greiddur þá hefur umsóknin engin áhrif á réttindi umsækjanda hjá sjóðnum.

  5.6. Ef starfsþróunarstyrkur er veittur, þá er ekki hægt að sækja um styrk í starfsmenntunarsjóði fyrir sama námi ef réttur til starfsþróunarstyrks er fullnýttur.

 6. Málskotsréttur
  Félagsmaður á ávallt rétt á að vísa erindi sínu á ný til stjórnar starfsmenntunarsjóðs ef hann er ósáttur við afgreiðslu á umsókn sinni. Stjórnin skal þá fjalla um umsóknina aftur á næsta fundi.

 7. Gildistökuákvæði
  Reglur þessar eru samþykktar af stjórn Starfsmenntunarsjóðs SFR 14. desember 2016 og taka gildi 1. janúar 2017. Við gildistökuna falla úr gildi eldri starfsreglur og aðrar ákvarðanir sem ekki eru í samræmi við reglur þessar. Reglurnar geta tekið breytingum samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

  Stjórnin áskilur sér rétt til breytinga á reglum þessum án fyrirvara.
  Vel útfylltar umsóknir flýta fyrir afgreiðslu styrkbeiðna.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)