Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

1. apríl 2022

Ályktanir samþykktar á aðalfundi

Frá aðalfundi Sameykis. Ljósmynd/BIG

Á aðalfundi Sameykis sem haldinn var í gær voru samþykktar eftirfarandi ályktanir; um auðlindir Íslands, um lögfestingu á styttingu vinnuvikunnar, um samkomulag um jöfnun launa á milli markaða, um aðför að opinberum starfsmönnum og innviðum Íslands, um stríðið í Úkraínu og að lokum um húsnæðismarkaðinn þar sem ríkir ófremdarástand. Með þessum ályktunum vill Sameyki vara við þeirri óheillaþróun sem fram koma í þeim og hvetja stjórnvöld til aðgerða.

 

1. Auðlindir Íslands
Sameyki skorar á stjórnvöld að virða vilja þjóðarinnar um sanngjarnar og hærri tekjur af auðlindum Íslands. Sjávarútvegsfyrirtækin í landinu greiða sér milljarða í arð af hagnaði af nýtingu fiskveiðiauðlinda á ári hverju á meðan ríkið fær greitt lítið brot af þeim hagnaði. Ríkisstjórnin á að hafa forystu í ð standa vörð um að auðlindir þjóðarinnar séu ekki misnotaðar og hafa frumkvæði að því að allt íslenskt samfélag njóti góðs af nýtingu auðlinda landsins á sanngjarnan hátt. Einnig krefst Sameyki þess að stjórnvöld standi við það markmið sem þau hafa sett sér að afla nægrar þekkingar til að móta skýra stefnu í nýtingu náttúruauðlinda landsins eins og segir á vef Stjórnarráðsins, „að starfrækja stofnanir sem hafa það meginhlutverk að afla þekkingar á stöðu náttúruauðlinda landsins hverju sinni og veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi ráðstöfun þeirra“. Þekking, gagnsæi og upplýsing sporna gegn spillingu í meðförum á náttúruauðlindum Íslands.

 

2. Lögfesting á styttingu vinnuvikunnar
Sameyki hvetur stjórnvöld til að lögleiða 35 stunda vinnuviku öllu launafólki í landinu til heilla. Lögleiðing á styttingu vinnuvikunnar í 35 klst. er eðlileg krafa hjá launafólki eftir reynslutímann sem nú er liðinn frá síðustu kjarasamningum. Sú kerfisbreyting sem orðið hefur á vinnumarkaðnum hefur skapað rými fyrir samfélagið allt til að njóta betra lífs sem birtist í betri líðan, auknu öryggi á vinnustöðum, meiri velsæld og ánægðara starfsfólki. Stjórnvöld þurfa að taka mið af þessum breytingum til framtíðar. Sameyki varar við því að stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins snúi þeirri þróun við sem orðið hefur á vinnumarkaðnum og samfélaginu öllu vegna styttingar vinnuvikunnar.


3. Samkomulag um jöfnun launa á milli markaða
Sameyki mótmælir harðlega að stjórnvöld standi ekki við samkomulag sem undirritað var 16. september 2016 milli heildarsamtaka launafólks, ríkis og sveitarfélaga um jöfnun launa á milli opinbera og almenna launamarkaðarins. Samræma átti lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði, aldurstenging réttinda átti að verða grundvallarregla kerfisins og lífeyristökualdur átti að hækka (úr 65 í 67 ára) til að stuðla að sjálfbærni. Um leið skuldbundu stjórnvöld sig til að jafna launakjör opinberra starfsmanna við almenna vinnumarkaðinn með markvissum aðgerðum á næstu 6–10 árum. Næstkomandi haust verða liðin 6 ár frá samkomulaginu og staðan er sú í dag að ekki hafa komið neinar skilgreindar krónur í vasa opinberra starfsmanna. Launamunurinn er enn að meðaltali um 16,8 prósent og Sameyki krefst þess að ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin standi við sinn þátt samkomulagsins. Það er ekki líðandi að þetta mikilvæga mál verði ekki leyst fyrir næstu kjarasamninga, með öllum þeim óróa og vondu áhrifum sem slíkt myndi hafa á kjarasamningsviðræðurnar.

 

4. Aðför að opinberum starfsmönnum og innviðum Íslands
Sameyki mótmælir harðlega málflutningi Samtaka atvinnulífsins um að opinberir starfsmenn leiði launaþróunina í landinu. Samtök atvinnulífsins fullyrða að starfsmenn ríkisins séu upp til hópa á ofurlaunum, sem séu langtum hærri en almennt gerist á vinnumarkaði. Þessi málflutningur er viðbót við málflutning ákveðinna stjórnmála- og fjármálaafla sem grefur undan opinbera velferðarkerfinu og starfsmönnum þess og er undanfari að niðurbroti á opinberri þjónustu. Staðreyndin er sú að Samtök atvinnulífsins, stéttarfélögin á almennum markaði og ríkið stóðu saman að svokölluðum Lífskjarasamningi í janúar 2019. Þar var samið um krónutöluhækkanir eftir ákveðinni forskrift sem opinberir starfsmenn tóku síðan mið af í sínum kjarasamningum. Sameyki krefst þess einnig að stjórnvöld sjái til þess að ríkið fari ekki í að einkavæða innviðina með því að markaðsvæða almannaþjónustuna. Hagsmunasamtök atvinnurekenda á almennum markaði vinna að því að sérhagsmunaaðilar komist yfir eignir almennings, til dæmis flutningskerfin, veitur, fjarskipti, háskóla, spítala og heilbrigðisstofnanir, og geti síðan hækkað gjöld og þjónustu á almenning í gegnum þær stofnanir. Þessa sókn fjármálaaflanna í eigur landsmanna verður að stöðva með mjög ákveðnum hætti.

 

5. Stríðið í Úkraínu
Sameyki fordæmir innrás Rússlands í Úkraínu. Innrás Rússlands í frjálst og fullvalda ríki í Evrópu er stórfellt brot á alþjóðalögum og sjálfsákvörðunarrétti þjóða og með því ógnar Rússland einnig öðrum nágrannaríkjum og heimsbyggðinni allri. Í Úkraínu ríkir nú neyðarástand, skortur er á mat og vatni, lyfjum og öðrum nauðsynjavörum og fólk lifir í stöðugum ótta um eigið öryggi. Milljónir manna flýja landið og þurfa skjól og aðhlynningu. Félagar okkar í verkalýðsfélögum Úkraínu og nágrannaríkjum þess hafa sent ákall til félaga sinna um allan heim um stuðning í bæði orðum og verki. Um leið skorar Sameyki á íslensk stjórnvöld að þau tali fyrir friðsamlegum lausnum á alþjóðavettvangi og styðji jafnframt áframhaldandi viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi. Þá skorar Sameyki á stjórnvöld að veita flóttamönnum sem hingað koma í neyð vernd og hæli þegar í stað.

 

6. Húsnæðismarkaðurinn
Á húsnæðismarkaðnum hefur átt sér stað óheillaþróun á undanförnum árum. Hluti af vandanum er stefnu- og ábyrgðarleysi stjórnvalda í húsnæðismálum og slæmar ákvarðanir Seðlabanka Íslands þegar bankinn losaði um bindiskyldu bankanna til að örva hagkerfið. Bankarnir fengu þar um 40 milljarða sem skilja mátti að ættu að styðja betur við atvinnulífið þegar óveðurskýin voru að hlaðast upp. Bankarnir dældu hins vegar fjármunum inn á húsnæðismarkaðinn sem áttu sinn þátt í að sprengja upp allan kostnað við húsnæðiskaup og húsaleigu. Íslensk stjórnvöld sváfu á verðinum. Afborganir af þessum lánum almennings hafa hækkað mikið og almenningur tekur höggið á meðan bankastofnanir græða. Sameyki skorar á stjórnvöld að stíga fram og skattleggja hagnað bankanna á síðasta ári með stórtækri aðgerð.

Sameyki krefst þess að stjórnvöld bregðist við þessu ástandi á húsnæðismarkaðnum og móti sér langtímastefnu sem almenningur geti treyst á, m.a. með endurskoðun vaxtabótakerfisins, sérstökum stuðningi við barnafólk og ungt fólk til að koma sér upp húsnæði. Það telst til sjálfsagðra mannréttinda að eiga heimili. Sveitarfélögin þurfa einnig að axla ábyrgð með auknu framboði af lóðum svo hægt sé að mæta þessari miklu þörf með byggingu nýrra íbúða.

Sameyki krefst þess að stjórnvöld standi þegar í stað við orð sín um úrbætur sem fram koma í skýrslu starfshóps stjórnvalda sem kom út í apríl 2019 um „lækkun þröskulds ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn,“ eins og segir í heiti skýrslunnar.