Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

Úthlutunarreglur styrktar og sjúkrasjóðs Sameykis

Úthlutunarreglur um sjúkradagpeninga 

Gilda frá 1. janúar 2021

1.Hver á rétt á styrk?
1.1.Félagsmenn þurfa að hafa verið félagar í Sameyki í eitt ár til að eiga rétt á styrk. Undanskilið er styrkur vegna krabbameinsskoðunar og hjartaverndar en þá er þriggja mánaða félagsaðild skilyrði. Ekki er hægt að sækja um styrki aftur í tímann, þ.e. umsóknir gilda á því ári sem sótt er um styrkinn.
1.2.Þá skal félagsmaður hafa greitt a.m.k. 20.000 kr. í félagsgjöld síðastliðna 12 mánuði til að fá fullan styrk. Hálfur styrkur er veittur þeim sem hafa greitt 19.999 kr. eða minna í félagsgjöld síðastliðna 12 mánuði.
1.3.Félagsmaður þarf að vera í starfi bæði þegar hann sækir um styrk og notar hann.
1.4.Félagsmenn í atvinnuleit geta nýtt sér áunninn rétt ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld meðan á atvinnuleit stendur.
1.5.Félagsmenn í fæðingar- eða foreldraorlofi geta nýtt sér áunninn rétt ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld meðan á orlofi stendur.
1.6.Félagsmenn halda réttindum sínum í sjóðnum á meðan þeir nýta veikindarétt sinn og það tímabil sem þeir fá greidda sjúkradagpeninga.
1.7.Réttindi falla niður 2 mánuðum eftir að síðasta greiðsla félagsgjalda í sjóðinn berst.

2.Styrktar eru eftirfarandi meðferðir, forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir:

2.1.Sjúkraþjálfun, sjúkranudd, hnykklækningar
Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í eitt ár fær styrk til sjúkraþjálfunar, sjúkranudds og hnykklækninga (kiropraktor) eða sambærilegrar meðferðar, 2.500 kr. fyrir hvert skipti í allt að 25 skipti á almanaksári.
Einnig er hægt að sækja um styrk vegna þjálfunar hjá Hjarta- og lungnastöðinni eða sambærilegum stofnunum.

2.2.Krabbameinsleit og hjartavernd
Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í þrjá mánuði fær styrk fyrir venjubundna skoðun hjá Brjóstamiðstöð eða kvensjúkdómalækni einu sinni á almanaksári. Leghálsstrok eingöngu 4.984 kr.eða brjóstamynd eingöngu 4.984 kr. Leghálsstrok- og brjóstamyndun í sömu skoðun 8.800 kr. (sem er hámarksstyrkur vegna venjubundinnar krabbameinsleitar á hverju almanaksári.)

Einnig getur sjóðfélagi fengið styrk til krabbameinsskoðunar í ristli og blöðruhálskirtli að hámarki 10.000.kr.

Þá getur sjóðfélagi sem hefur verið 12 mánuði í félaginu fengið styrk fyrir framhaldsrannsóknum vegna krabbameins á vegum Krabbameinsfélags Íslands, allt að 10.000.kr.

Félagsmaður sem hefur náð þriggja mánaða félagsaðild getur fengið styrk fyrir áhættumatsskoðun hjá Hjartavernd að hámarki 20.000 kr. einu sinni á almanaksári.

2.3.Sálfræði-, félags- og fjölskylduráðgjöf
Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í eitt ár fær styrk vegna meðferðar hjá eftirtöldum viðurkenndum meðferðaraðilum:
Félagsráðgjafa, fjölskylduráðgjafa, sálfræðingi eða listmeðferðarfræðingi. Ekki er greitt fyrir viðtal hjá geðlækni þar sem það fellur undir
afsláttarkort Sjúkratrygginga Íslands. Ekki er heldur greiddur styrkur ef sálfræðitími er niðurgreiddur hjá heilsugæslu.
Greitt er 50% af reikning að hámarki 80.000 kr. á almanaksári.

2.4.Dvöl á heilsustofnun
Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í eitt ár fær styrk vegna meðferðar á Heilsustofnun NLFÍ. Greiddar eru 2.500 kr. á dag fyrir allt að 42 daga á almanaksárinu.

2.5.Líkamsrækt
Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í eitt ár eða lengur fær styrk að hámarki 23.000 kr. á ári. Reikningar eru viðurkenndir frá eftirtöldum aðilum: Líkamsræktarstöðum, sundstöðum, skíðastöðum eða íþróttafélagi. Einnig önnur líkamsrækt sem telst sambærileg að dómi sjóðstjórnar.

2.6.Augnaðgerðir og gleraugu
Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í eitt ár á rétt á að sækja um einu sinni á 36 mánaða fresti styrk til „laser" og augasteins aðgerðar á öðru auga 50.000 kr. eða 100.000 kr. fyrir bæði augu.
Einnig er veittur styrkur vegna gleraugna- eða linsukaupa einu sinni á 36 mánaða fresti. Greidd eru 20% af heildarverði reiknings sem er að upphæð 10.000 kr. eða hærri. Styrkur vegna gleraugnakaupa/linsukaupa getur þó ekki orðið hærri en 30.000 kr.

2.7.Tannviðgerðir
Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í eitt ár getur sótt einu sinni um styrk vegna tannlæknakostnaðar á 24 mánaða fresti. Styrkurinn nemur 50% af kostnaði sem er umfram 50.000 kr., að hámarki 150.000 kr. Ekki eru teknar eldri kvittanir en frá fyrra ári.

2.8.Heyrnartæki
Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í eitt ár getur sótt um styrk á 36 mánaða fresti til kaupa á heyrnartækjum, styrkurinn nemur 50% af kostnaði sem fer umfram 50.000 kr., þó að hámarki 150.000 kr.

2.9.Tæknifrjóvgun
Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í eitt ár getur fengið greitt 30% af reikningi vegna smásjár- eða glasafrjóvgunarmeðferða (lyf eru ekki innifalin). Hámarksstyrkur er 150.000 kr. á almanaksári.

2.10.Hættu að reykja – námskeið
Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í eitt ár getur sótt um styrk vegna vegna námskeiðs til að hætta reykingum. Hámarksstyrkur er 15.000.- í eitt skipti á almanaksári.

2.11.Ferðastyrkur

Sjóðurinn tekur þátt í ferðakostnaði sjóðfélaga sem þurfa að fara landshluta á milli til aðgerða eða rannsókna að læknisráði vegna þeirra sjálfra, maka þeirra og barna, enda hafi verið greitt vegna þeirra í sjóðinn í 6 mánuði af síðustu 12. Sækja verður um styrk til Tryggingastofnunar. Sé þeirri beiðni hafnað greiðir sjóðurinn 10.000 kr. fyrir 250 - 400 km akstur, 15.000 kr. fyrir 400 – 600 km akstur, 20.000 kr. fyrir 600 – 800 km akstur og 25.000 kr. fyrir 800 km akstur eða meira. Miðað er við ferðalag fram og til baka. Greitt verður að hámarki fyrir þrjár ferðir á hverju 12 mánaða tímabili. Sjóðstjórn er heimilt að víkja frá þessum viðmiðunum ef fyrir því liggja ríkar ástæður.

3.Aðrir styrkir

3.1.Fæðingarstyrkur
Greiddur er fæðingarstyrkur úr Styrktar-og sjúkrasjóði Sameykis. Styrkurinn er jafnhár til kvenna og karla en hliðsjón er höfð af starfshlutfalli. Fullur styrkur er 240.000 kr.,- vegna hvers barns og miðast við að foreldri hafi stundað 100% starf síðustu 6 mánuði fyrir fæðingu barns /barna.
3.2.1.Foreldrar sem eru félagsmenn í Sameyki eiga rétt á styrk séu þeir aðilar að sjóðnum og uppfylla skilyrði um sjóðsaðild.
3.2.2.Séu báðir foreldrar í Sameyki, sækja þau um hvort í sínu lagi.
3.2.3.Umsækjandi þarf að vera að lágmarki í 25% starfshlutfalli til að eiga rétt á styrk.
3.2.4.Styrkurinn lækkar í hlutfalli við skert starfshlutfall.
3.2.5.Um ættleiðingar gilda sömu reglur og ef um venjulega fæðingu væri að ræða.
3.2.6.Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og andvana fæðingu er greiddur út hálfur fæðingarstyrkur.
3.2.7.Hægt er að nýta styrkinn upp að 18 mánaða aldri barns/barna.
Fæðingarstyrkur er veittur til foreldris gegn framvísun fæðingarvottorðs og staðfestingu atvinnurekanda um að umsækjandi sé með ráðningu þar sem fram koma upplýsingar um starfshlutfall hans s.l. 6 mánuði fyrir fæðingu barns/barna.

3.2.Dánarbætur
Greiddur er 200.000 kr. dánarbætur enda hafi hinn látni verið sjóðfélagi í 12 mánuði fyrir andlát. Enn fremur greiðir sjóðurinn dánarbætur að fjárhæð 100.000 kr. vegna andláts fyrrverandi sjóðfélaga allt að 5 árum eftir að þeir hafa hætt störfum vegna aldurs eða örorku. Þá er greiddur styrkur til félagsmanna vegna andláts barna þeirra 18 ára og yngri. Styrkurinn er greiddur til þess sem útförina annast. Dánarbætur greiðast til lögerfingja. Skila þarf inn yfirliti um framvindu skipta frá Sýslumanni ásamt reikning fyrir útför.

4.Sérstakar aðstæður
Heimilt er, eftir mati sjóðstjórnar hverju sinni, að veita styrk vegna sérstakra aðstæðna sem hafa í för með sér launamissi eða veruleg fjárútlát sjóðfélaga vegna veikinda hans sjálfs eða nánustu fjölskyldu. Allar umsóknir vegna sérstakra aðstæðna þurfa að fara fyrir fund stjórnar styrktar- og sjúkrasjóðs sem fjallar um þær.

5.Hvernig er greitt úr sjóðnum
Gögn: Nauðsynleg gögn verða að liggja fyrir til að sjóðfélagi geti fengið greitt úr sjóðnum. Þessi gögn eru: Sundurliðaður reikningur, sem sannanlega er greiddur með nafni umsækjanda og kennitölu. Á reikningnum þarf að vera áritun/stimpill/merki þess er gefur reikninginn út með upplýsingum um nafn, starfsheiti, kennitölu og heimilisfang eða símanúmer. Fjöldi skipta og dagsetningar meðferða eða kaupa á vöru eða þjónustu skal koma fram á reikningi. Athygli skal vakin á að kvittanir eða aðgerðardagsetningar mega aldrei vera eldri en 12 mánaða, frá því að sótt er um og gögnum skilað inn. Undanskilið eru tannlæknakvittanir.
Greiðslukvittunum skal skila rafrænt á heilsustyrkir@sameyki.is eða skrifstofu Sameykis.
Styrkir eru forskráðir á skattaskýrslu. Heimilt er að skrá kostnað á móti vegna líkamsræktar þegar framtali er skilað samkvæmt reglum ríkisskattstjóra.

6.Hvernig er sótt um styrk?
Til að umsókn fari í vinnslu þarf bæði að fylla út rafræna umsókn og skila inn fylgigögnum. Rafræn umsókn er send í gegnum Mínar síður Sameykis á www.sameyki.is.
Reikninga og/eða greiðslukvittanir og önnur fylgigögn skal senda rafrænt sem viðhengi inni á Mínar síður eða á heilsustyrkir@sameyki.is. Einnig er hægt að skila þeim á skrifstofu Sameykis, Grettisgötu 89, 105 Reykjavík.

Stjórnin áskilur sér rétt til breytinga á reglum þessum án fyrirvara.
Vel útfylltar umsóknir flýta fyrir afgreiðslu styrkbeiðna.

Þetta vefsvæði notar vafrakökur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega virkni og notendaupplifun. Með því að nota hann samþykkir þú notkun þeirra. (Þessi tilkynning birtist vegna nýrra persónuverndarlaga.)