Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

19. október 2022

Launafólk gert ábyrgt fyrir hagstjórninni

F.v. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Kristján Þórður Snæbjarnarson, sitjandi forseti ASÍ, Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB. og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri.

Hagspá Landsbankans var birt í morgun og kynnt á fundi í Silfurbergi í Hörpu. Þar var rætt um komandi kjarasamninga og kröfur launafólks. Á fundinum voru pallborðsumræður um vinnumarkaðinn og tóku þar til máls Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Kristján Þórður Snæbjarnarson, sitjandi forseti ASÍ, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

 

Framkvæmdastjóri SA á villigötum
Flótti frá einkageiranum yfir í opinbera geirann er þróun sem ber dauðann í sér, sagði Halldór Benjamín, og átti við að fólk sem sinnti grunnþjónustunni á opinbera vinnumarkaðnum færi að starfa þar í stað þess að starfa á almenna vinnumarkaðnum. Halldór Benjamín virðist ekki átta sig á flótta heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir störfum í grunnþjónustunni vegna álags og kulnunar. Einnig hefur formaður BSRB svarað þessum áróðri framkvæmdastjóra SA í grein, sjá hér.

Halldór Benjamín sagði, eins og hann hefur áður gert ítrekað, að opinberi vinnumarkaðurinn leiddi launaþróunina í landinu. Hið rétta er aftur á móti að launaþróunina í landinu leiðir almenni vinnumarkaðurinn samkvæmt greiningum Kjaratölfræðinefndar sem Sameyki hefur bent á í greinaskrifum t.d. hér og hér.

Annars kom framkvæmdastjóri SA víða við í að spyrja sjálfan sig og svara um leið ýmsum spurningum og allt á þann veginn að hagstjórnin væri almennu launafólki að kenna og fór mikinn í að teikna upp svarta mynd af því ef launafólk fer fram á kjarabætur. Þá vék hann máli sínu að stofnunum ríkisins sem hann kallar „kanselíið“.

„Ef við bara horfum inn í kanselíið, ef ég leyfi mér að sletta, ef við horfum inn í stofnanir ríkisins, ef við horfum inn í ráðuneytin þá sjáum við að það er gríðarlegt launaskrið á þessum stöðum og við sjáum að það er verulegur flótti – hugsið ykkur, sagði Halldór Benjamín og baðaði út höndum, af almenna vinnumarkaðnum í kanselíið. Það er flótti frá einkafyrirtækjunum inn í opinbera kerfið sem nemur nokkur þúsund störfum yfir kjarasamningstímabilið. Og þetta er auðvitað þróun sem ber auðvitað dauðann í sér yfir langs tíma og við getum ekki sætt okkur við,“ sagði Halldór Benjamín hróðugur.

 

Heimilin í landinu greiða fyrir verðbólguna
Forseti ASÍ, Kristján Þórður Snæbjarnarson, tók til máls og sagði að í næstu kjarasamningum myndi launafólk fara fram á hækkun launa og benti á að áróður SA um hættuna sem stafaði af slíkum kröfum; hækkun vaxta, hækkandi verðbólgu og rýrnun kaupmáttar vegna þeirra, stæðist ekki skoðun. Um væri að ræða ytri þætti eins og hækkandi húsnæðisverð, hrávöruverð o.fl. Þá þyrfti að tryggja stöðu heimilanna.

„Við þurfum að tryggja stöðu heimilanna. Það er útgangspunkturinn í þessu að heimili landsins eru sá aðili sem greiðir brúsann. Aukin verðbólga lendir á heimilunum og það er þar sem þarf að sækja og tryggja að laun standi undir þeim útgjöldum sem heimilin þurfa að glíma við. Þarna skiptir auðvitað líka miklu máli hvernig samfélagið bregst við með stuðningi við heimilin,“ sagði Kristján Þórður.

 

Launafólk gert ábyrgt fyrir vaxtahækkunum
Halldór Benjamín tók aftur til máls og sagði að afleiðingarnar af hækkun launa kæmu illa niður á launafólki vegna hækkunar stýrivaxta, minnkandi kaupmáttar, hækkunar húsnæðislána o.fl. Varaseðlabankastjóri tók undir orð framkvæmdastjóra SA og benti á að nauðsynlegt væri að kjarasamningar næðust fljótt.

„Það skiptir verulega miklu máli að það náist samningar hérna tiltölulega fljótt til þess að draga úr þeirri óvissu sem við höfum hér á landi einhverja stjórn á. Það skiptir líka máli eins og Halldór benti á að það sé ekki verið að reyna að ná upp kaupmættinum strax eins og sumir verkalýðsleiðtogar hafa talað um; að kaupmátturinn sé verri núna en þegar að samið var [síðast]. Ég held að það skipti máli að samningarnir séu ekki framhlaðnir eins og við sjáum í spánni okkar að við erum ekki að ná verðbólgunni niður í markmið á spátímanum. Það skiptir verulega miklu máli að samningarnir taki mið af því að byggja upp kaupmáttinn til framtíðar þannig að í lok samningstímans sé góður kaupmáttur en ekki að þeir séu framhlaðnir núna,“ sagði Rannveig.

Rannveig benti einnig á að við hefðum verið heppin:

„Hér hefur verið viðskiptakjarabati, ferðamannastraumur og sterkt gengi og þangað til núna nýlega lágt innflutningsverðlag.“ Einnig að viðskiptakjarabatinn hafi verið töluverður síðustu tvö árin. „Líklega er þetta eitthvað sem við getum ekki reiknað með til frambúðar, en það sem skiptir mestu máli er að svona miklar launahækkanir þýða að vextir eru hærri heldur en ella. Umræða um af hverju vextir eru svona háir hérna á Íslandi, hún er ... þetta er akkúrat skýringin á því. Vextirnir þurfa að vera hærri til þess að vinna gegn svona miklum launahækkunum,“ sagði Rannveig og lauk máli sínu.

 

Launin alltaf lægst á opinberum vinnumarkaði
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sagði að launin væru alltaf lægst á opinbera vinnumarkaðnum. Spurð hvort BSRB myndi slá af sínum kröfum í komandi kjarasamningum svaraði Sonja Ýr:

„Við skulum hafa í huga að það er verið að horfa á síðastliðin kjarasamningstímabil ákveðin ár aftur í tímann og þar er verið að lýsa launaþróun, þróun yfir tiltekið tímabil. Það segir ekki til um hver staðan er í kerfinu heilt yfir, hvort við lítum svo á að það séu sanngjörn og réttmæt laun á opinberum vinnumarkaði samanborið við almennan vinnumarkað. Við vitum út frá niðurstöðum Kjaratölfræðinefndar, sem við eigum öll aðild að, að launin eru alltaf lægst á opinberum vinnumarkaði og langlægst hjá sveitarfélögunum. Það er fyrst og fremst okkar hlutverk [BSRB] að tryggja lífskjör og lífsgæði okkar félagsfólks. Þannig erum við að tryggja okkar ábyrgð – við erum að tryggja að okkar fólk nái endum saman.“

Auðvitað er þessi áróður framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem Seðlabanki Íslands tekur undir, ætlaður að vekja ugg á meðal launafólks að sækja kjarabætur og það eigi að halda að sér höndum með kröfur um hærri laun til að ná endum saman í sínu lífi.

Niðurstaða Halldórs Benjamíns er að launafólk beri ábyrgð á gangi mála í hagkerfinu og beri ábyrgð á hagstjórn ríkisstjórnarinnar í stað þess að ríkisstjórnin sæki tekjur ríkisins innan fjárlaga sinna, eins og Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, benti á hér. Tekjumöguleika eins og hátekjuskatt, bankaskatt, hvalrekaskatt og hækkun fjármagnstekjuskatts – svo ekki sé talað um sanngjarnari skattlagningu fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.


Hægt er að horfa á fundinn hér fyrir neðan.